Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Rannsóknanefnd rannsaki læknamistök

19.03.2013 - 17:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Fimm þingmenn hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um að sérstök rannsóknanefnd verði skipuð til að annast rannsókn mistök í heilbrigðisþjónustu, en slíkar rannsóknir hafa til þessa verið á borði Landlæknis.

Megintilgangur frumvarpsins er að sjálfstæð og óháð rannsóknanefnd leiði í ljós hvort mistök hafi orðið innan heilbrigðiskerfisins og orsakir þeirra. Nefndin mun ekki taka beina afstöðu til þess hvort sök sé til staðar og þá skaðabótaskylda. Flutningsmenn eru Valgerður Bjarnadóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þuríður Backman og tveir fyrrverandi heilbrigðisráðherrar, þær Álfheiður Ingadóttir og Siv Friðleifsdóttir. 

Í tilkynningu kemur fram að margir hafi bent á að embætti landlæknis sé ekki best til þess fallið að rannsaka meint mistök heilbrigðisstarfsmanna, einkum lækna,  á hlutlægan hátt. Mál séu lengi í athugun, eiginleg rannsókn fari ekki fram og athugun embættisins skili í fæstum tilfellum niðurstöðu.

Í nýjustu tölum á vef embættisins kemur fram að á árinu 2010 bárust 252 kvartanir og kærur vegna mistaka í heilbrigðisþjónustu var afgreiðslu 76 þeirra eða um 30% ólokið í mars 2011. Afdrif þessara kvartana voru þau að einn heilbrigðisstarfsmaður var sviptur starfsleyfi en það er alvarlegasta aðgerðin er sem gripið er til af hálfu heilbrigðisyfirvalda ef kærumál er staðfest, einum veitt lögformleg áminning, þrír fengu aðfinnslu en niðurstaðan í 21 máli var ábending. Af 176 málum sem landlæknir hafði lokið athugun í um miðjan mars 2011 höfðu 26 verið staðfest að hluta eða öllu leyti en 19 málum var enn ólokið.