Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Rannsókn allra hrunmála er lokið

24.01.2018 - 21:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rannsókn allra sakamála sem tengjast bankahruninu 2008 er lokið. Þessi tímamót urðu í starfsemi Héraðssaksóknara í síðasta mánuði þegar síðasta rannsóknin var felld niður. Sex hrunmál eru þó enn fyrir dómi.

Í haust verður liðinn áratugur frá bankahruninu og fyrir viku hófst í héraðsdómi aðalmeðferð í stóra markaðsmisnotkunarmáli Glitnis. Fleiri ný hrunmál koma ekki til kasta dómstóla, samkvæmt upplýsingum frá Héraðssaksóknara, enda er ekkert slíkt mál lengur til rannsóknar eða ákærumeðferðar hjá embættinu.

Sérstakur saksóknari hóf störf í ársbyrjun 2009 og rann síðan inn í embætti Héraðssaksóknara. Á þessum tíma hafa 202 mál tengd efnahagshruninu komið inn á borð saksóknara. Rannsókn 84 þeirra var hætt og 18 voru felld niður eftir að rannsókn lauk, 22 voru sameinuð öðrum málum, 4 framsend öðru embætti, 7 voru flokkuð sem aðstoð við erlend yfirvöld og 9 sem aðstoð við önnu innlend yfirvöld og ein ákæra var afturkölluð eftir útgáfu.

Sautján málum hefur lokið með dómi, þar af hefur verið sakfellt að öllu leyti eða hluta í þrettán málum og sýknað í fjórum. Sex mál eru enn fyrir dómi, af þeim eru fjögur í annarri umferð sinni um réttarkerfið eftir ógildingu dóma í Hæstarétti: þetta eru mál kennd við Aurum Holdings, Marple, Stím og svokölluð CLN-skuldabréf.

Hin tvö eru áðurnefnt markaðsmisnotkunarmál Glitnis og innherja- og umboðssvikamál gegn Hreiðari Má Sigurðssyni og Guðnýju Örnu Sveinsdóttur. Ákæra í því síðarnefnda var gefin út í september 2016 og reyndist sú síðasta sem gefin yrði út í hrunmálum. Það varð ljóst nú í desember, þegar Héraðssaksóknari felldi niður síðustu hrunrannsóknina sína.