Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Rannsókn á fölsunum Þjóðfylkingarinnar hætt

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögregla hefur hætt rannsókn sinni á meintum undirskriftafölsunum Íslensku þjóðfylkingarinnar í aðdraganda alþingiskosninganna í fyrrahaust. Þetta staðfestir yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í svari við fyrirspurn fréttastofu. Enginn hafði nokkru sinni réttarstöðu grunaðs við rannsóknina.

Íslenska þjóðfylkingin skilaði inn framboðslistum í fjórum kjördæmum fyrir þingkosningarnar fyrir tæpu ári; Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, Suðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Flokkurinn dró hins vegar alla framboðslista sína til baka eftir að kjörstjórnir gerðu athugasemdir við meðmælendalista.

Stikkprufur leiddu í ljós að margir á meðmælendalistunum könnuðust ekki við að hafa undirritað meðmæli með framboðinu. Þar fyrir utan virtust mörg nafnanna rituð með sömu hendinni. Kjörstjórnir tilkynntu málið til lögreglu vegna gruns um skjalafals og það endaði á borði miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Karl Steinar Valsson, yfirmaður deildarinnar, segir hins vegar að ekki hafi reynst grundvöllur fyrir áframhaldandi rannsókn og henni hafi því verið hætt án þess að neinn hafi nokkurn tíma fengið réttarstöðu sakbornings.

Þetta er annað málið af þessu tagi sem ratar til lögreglu. Hið fyrra snerist um meðmæli með forsetaframboði Ástþórs Magnússonar árið 2012. Rannsókn þess máls tók þrjú ár en það var að endingu einnig fellt niður. Í því máli hafði starfsmaður framboðsins réttarstöðu sakbornings.