Rannsókn á skráaskiptasíðunni deildu punktur net er á frumstigi, að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirmanns rannsóknarlögreglu höfuðborgarsvæðisins.
Greint var frá því nýverið að skráarskiptasíðan hefði breytt reglum sínum og að nú væri notendum leyft að deila íslensku efni: tónlist, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Deildu.net hefur verið starfrækt í nokkur ár og hingað til hefur einungis erlendu höfundavörðu efni verið deilt þar.
Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri Smáís, samtaka myndréttarhafa, sagði í fréttum RÚV í liðnum mánuði að starfsemi síðunnar væri stríðsyfirlýsing við skapandi greinar á Íslandi. Þá undraðist Snæbjörn að ekki væri búið að gefa út ákæru á hendur forsvarsmönnum síðunnar.