Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Rannsókn á dauða Magnitskys hætt

19.03.2013 - 10:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Yfirvöld í Rússlandi hafa hætt rannsókn á dauða lögmannsins Sergeis Magnitskys, sem lést í haldi lögreglu árið 2009, skömmu eftir að hann hafði upplýst um stórfellt misferli og fjársvik háttsettra manna innan lögreglu og skattkerfisins.

Í yfirlýsingu frá rannsóknarnefnd segir að ekki hafi komið fram neitt sem sýni fram á að Magnitsky hafi látist af völdum ofbeldis eða illrar meðferðar, eins og fjölskylda hans og bandarískur samstarfsmaður hafa haldið fram.

Mál Magnitskys hefur leitt til versnandi samskipta milli Rússa og Bandaríkjamanna. Bandaríkjaþing samþykkti í fyrra lög sem meina þeim sem tengjast dauða Magnitskys að koma til Bandaríkjanna og nota bandaríska bankaþjónustu. Rússar bönnuðu í staðinn að rússnesk börn yrðu ættleidd til Bandaríkjanna.