Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Rannsókn á andláti Prince tekur nýja stefnu

11.05.2016 - 18:19
epa05270786 (FILE) A file picture dated 09 August 2011 of US musician Prince, during his concert at the Sziget Festival on the Shipyard Island, northern Budapest, Hungary. According to media reports, Prince died on 21 April 2016 at his Paisley Park
 Mynd: EPA - MTI
Rannsókn lögreglu á andláti tónlistarmannsins Prince virðist nú fyrst og fremst beinast að lækni í Minnesota, dr. Michael Schulenberg. Talið er að hann hafi heimsótt Prince daginn áður en poppstjarnan fannst látin í lyftu á heimili sínu. Bandaríska alríkislögreglan, FBI, aðstoðar við rannsókn málsins. Henni hefur verið falið að skoða hvort samstarfsfólk Prince hafi aðstoðað hann við að útvega sér ólögleg lyf.

Nafni læknisins er að finna í dómsskjölum sem Los Angeles Times og Minneapolis Star Tribune fengu aðgang að.  Skjölin sýna að lögreglan fór fram á heimild til að gera leit á læknastofu dr. Schulenberg og fá sjúkraskýrslur Prince.

Úrskurðirnir eru ekki lengur aðgengilegir almenningi og talsmaður héraðsdómstólsins í Henepin-sýslu sagði við CNN að þeir hefðu aldrei átt að birtast.

Í greinargerð lögreglunnar kemur fram að dr. Schulenberg hafi hitt Prince í tvígang skömmu áður en hann lést. Og að hann hafi látið söngvarann hafa lyfseðil en ekki kemur fram um hvers konar lyf var að ræða. CNN segir að Dr. Schulenberg sé hættur störfum á læknastöðinni sem hann vann hjá og þá hafi hann ekki tekið síma. Lögmaður hans hafi heldur ekki svarað beiðnum CNN um viðbrögð. Ekki er vitað af hverju Dr. Schulenberg var læknir Prince.

Prince fannst látinn í lyftu á heimili sínu 21. apríl, 57 ára að aldri. Lögreglan fann á heimil hans  sterk verkjalyf og nánir samstarfsmenn hans hafa sagt að hann hafi verið háður slíkum verkjalyfjum vegna meiðsla. 

Gögnin virðast hafa hleypt nýju blóði í rannsókn lögreglu á andláti Prince. CNN segir fjölda lögreglumannna hafi verið við vinnu á heimili Prince í allan dag. Þá er von á niðurstöðum úr krufningu tónlistarmannsins sem gerð var daginn eftir að hann lést.