Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Rannsaki pólitík óháðra blaðamanna

06.01.2015 - 20:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Er ekki tilvalið að fá einhvern félagsfræðistúdent til að rannsaka hvar í pólitík þeir fjölmiðlamenn standa sem tala mest um að þeir séu frjálsir eða óháðir spyr þingmaður Sjálfstæðisflokks? Algeng áróðurstækni segir annar ritstjóri nýja fjölmiðilsins Stundarinnar.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, skrifaði pistil á Pressuna í dag þar sem hann undraðist yfirlýsingar sumra fjölmiðlamanna sem hann segir að telji sig frjálsari og óháðari en aðra. Hann segir þessa frjálsu og óháðu eiga það sameiginlegt að tolla ekki lengi á sama miðli en spyr hvar þeir skyldu standa í pólitík. „Er ekki tilvalið að fá einhvern félagsfræðistúdentinn til að rannsaka það og smíða jafnvel meistararitgerð. Eða jafnvel fá lýðheilsufræðing í slíkt verkefni."

Á pólitískri vegferð
Brynjar sagði í samtali við fréttastofu  skrifin til komin vegna orða fjölmiðlamanna sem nýlega hafi hætt á DV og standi sumir hverjir að nýja fjölmiðlinum Stundinni. Þeir hefðu lýst sjálfum sér sem sjálfstæðum og óháðum en hann teldi flesta vera á ákveðinni vegferð.
„Þeir virka alls ekki á mig sem hlutlausir. Þeir eru í ákveðinni vegferð. Það er miklu hreinskilnara að segja það," sagði Brynjar í samtali við fréttastofu. Hann segist ekki gera athugasemd við að blaðamenn séu í pólitískri vegferð og það sé ekki þar með sagt að þeir geri ekki margt gott. Það sé allt í lagi með það. Einnig megi segja um Morgunblaðið að það sé í vegferð, hvort sem blaðið skammi Sjálfstæðisflokkinn eða hrósi.
Hann segir að það sé ekki bundið við fjölmiðilinn þó einn og einn fjölmiðlamaður fari fram með þessum hætti. Hann segir að góður blaðamaður hafi skoðun og sé aldrei hlutlaus en þá skipti máli hvernig fréttin er sögð, hvort þar komi fram andstæð sjónarmið og hvernig hlutir séu settir fram.

Algeng áróðurstækni
„Það er algeng áróðurstækni hjá þeim sem eru í flokkspólitískri baráttu að reyna að stimpla alla sem hluta af flokkapólitík," sagði Jón Trausti Reynisson, ritstjóri og framkvæmdastjóri Stundarinnar. Þannig sé hægt að afskrifa fólk í umræðu. „Við erum ekki flokkspólitísk. Við erum ekki starfandi í einhverjum flokkum. Eflaust hefur einhver starfað i einhverjum flokki einhvern tímann. En ég hef aldrei verið í stjórnmálaflokki."

Jón Trausti sagði í samtali við fréttastofu að auðvitað megi segja um fjölmiðla að þeir séu alltaf háðir einhverjum. Þannig geti Fréttablaðið verið háð auglýsingatekjum og fjölmiðill sem rekinn er með tapi geti verið háður eigendum sínum. Það megi þó setja upp rekstrarfyrirkomulag sem sporni með þessu, þannig geti fjölmiðill styrkt stöðu sína með því að hafa marga áskrifendur.

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Jón Trausti Reynisson, ritstjórar Stundarinnar.

Fjölmiðill í þágu fólksins
Jón Trausti og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, hinn ritstjóri Stundarinnar, voru gestir í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Ingibjörg Dögg sagði að markmiðið væri að stofna fjölmiðil sem gæti unnið í þágu fólksins og sagt fréttir þó þær væru óþægilegar fyrir valdhafa. Hún sagði að á Stundinni yrði að finna rannsóknarblaðamennsku í bland við annað efni.

Stundin verður hvort tveggja netmiðill og blað sem kemur út einu sinni í mánuði. Jón Trausti segir að með einni stórri mánaðarlegri prentútgáfu, í stað fleiri útgáfudaga, verði reksturinn hagstæðari og áhættan minni. Hann segir óljóst hversu margir blaðamenn verði á Stundinni. „Við erum í raun að komast að því núna. Forsenda þess að ráða blaðamenn eru tekjur. Því fleiri áskrifendur sem koma að þessu því fleiri blaðamenn getum við verið með."

Aðstandendur Stundarinnar hrundu af stað fjáröflun á Karolina fund í gær. Innan við sólarhring síðar hafði safnast á þriðju milljón króna, rúmlega helmingur þess fjár sem átti að afla á einum mánuði. Náist markmiðið verður hærri fjárhæð safnað uns söfnunartímabilið klárast.

Jón Trausti sagði að viðbrögð við fjársöfnuninni og viðbrögð sem hafi borist með öðrum hætti sýni að hugmyndin um óháðan fjölmiðil sé fólki mikilvæg. Þetta birtist gagnvart Stundinni og einnig í umræðu um Ríkisútvarpið. Auk áskriftasöfnunar verður fjár til starfseminnar aflað með auglýsingasölu og útgáfu hlutafjár. „Það stóð alltaf til að hafa ákveðið mikið hlutafé en það verður þá dreift og fólk kemur til liðs við okkur á þeim forsendum," segir Jón Trausti.

[email protected]