Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Rannsaka svartadauða með uppgreftri og DNA

15.06.2018 - 21:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Þess er vænst að fornleifarannsóknir í rústum Þingeyraklausturs í Austur-Húnavatnssýslu varpi nýju ljósi á upptök og afleiðingar svartadauða hér á landi. Munkar og ábóti klaustursins dóu úr svartadauða og markmiðið er að grafa upp bein þeirra og rannsaka með DNA tækni.

Á Þingeyrum var rekið klaustur í nærri fimm aldir fram að siðaskiptum um miðja sextándu öld. Þar var gríðarmikil starfsemi og fjölmargar byggingar. Klausturstarfsemi í svo langan tíma gerir staðinn kjörinn til rannsókna á margan hátt.

Gætu greint svartadauða í beinum með DNA

Þar á meðal eru einstakar aðstæður til að rannsana hina skæðu farsótt svartadauða. Veikin barst til landsins 1402 á starfstíma Þingeyraklausturs. Steinunn Kristjánsdóttir, fornleifafræðingur sem stýrir uppgreftrinum, segir þetta ástæðuna fyrir því að Þingeyrar urðu fyrir valinu til rannsókna. „Það hefur enginn kirkjugarður verið grafinn upp sem að nær yfir þennan tíma, þegar plágan kemur fyrst. Nema þá hér og hér er möguleikinn á að við finnum einhverjar leifar af svartadauða. Og það eru eiginlega nýjungar í DNA greiningum sem gera það kleift að það er hægt að greina sjúkdóminn.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Kjálki úr manni sem fannst á fyrstu dögum rannsóknarinnar

Ábótinn og munkarnir sagðir hafa dáið úr svartadauða

Hún vonast bæði til að finna mannabein sem hægt er að greina sjúkdóminn í, en einnig skordýr og finna út hvaða áhrif svartidauði hafði í klaustrinu. Sagnir herma að þar hafi allir munkarnir, nema einn, dáið og ábótinn líka. Einnig fjöldi leikmanna sem þar starfaði við búskap og fleira og fólk sem leitaði í klaustur til að kveða pestina niður. „Það var líka komið með lík til greftrunar, þannig að smithættan er meiri innan klaustranna heldur utan þeirra. Og af rituðum heimildum má ráða að kirkjulegar stofnanir hafi farið verst út úr svartadauða þegar kom að mannfalli.“  

Klausturkirkjan mjög stór bygging

Það er grafið í rústum sjálfrar klausturkirkjunnar á Þingeyrum. Það var mjög stór bygging, mun stærri en núverandi kirkja þar. Klausturkirkjan var staðsett með jarðsjármælingum og Steinunn segir að við uppgröftinn hafi komið í ljós að hún væri mun stærri en jarðsjáin sýndi. „Og við gerum okkur einmitt vonir um að finna grafir ábóta og munka í kirkjunni. Það var hefð fyrir því að grafa þá innandyra en ekki úti í kirkjugarðinum. Og ef við erum að hugsa um svartadauða þá eru kannski ennþá meiri líkur á að við finnum merki um sjúkdóminn hér og þróun hans og jafnvel hvernig hann barst til Íslands.“  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Krítarpípur hafa komið í ljós í uppgreftrinum

Svartidauði aldrei áður skoðaður í fornleifarannsóknum

Uppgröfturinn hófst 5. júní og Steinunn segir búið að fjármagna uppgröft í einn mánuð. Á þeim tíma verði aðeins hægt að rannsaka lítið brot af klausturrústunum, sem séu gríðarlega stórar. Því sé afar mikilvægt að geta haldið þessum rannsóknum áfram. „Svartidauði hefur ekki verið skoðaður í gegnum fornleifarannsóknir á Íslandi áður. Það er búið að skoða hann töluvert í gegnum ritaðar heimildir, en þær eru mjög takmarkaðar.  En ef okkur tekst að greina sjúkdóminn hér, sem við vitum að var hér, þá er það alger nýjung,“ segir Steinunn.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV