Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Rannsaka rof hússins hjá Barra

11.01.2012 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Umhverfisstofnun rannsakar nú atvik þar sem gróðurhús með erfðabreyttu byggi rofnaði í óveðrinu á Austurlandi í fyrrinótt. Líffræðiprófessor segir mildi að gróðurhúsið hafi rofnað að vetri til, byggið hefði því ekki getað sáð sér.

Umhverfisstofnun hefur veitt tíu leyfi til að rækta erfðabreytt dýr og plöntur á Íslandi, þar á meðal erfðabreyttar flugur og mýs. Leyfi er fyrir erfðabreyttu byggi á fimm stöðum á landinu. Það er ræktað í gróðurhúsum í Grindavík, á Kleppjárnsreykjum, á Reykjum í Ölfusi og á Egilsstöðum, og undir beru lofti í Gunnarsholti. Í fyrrinótt rofnaði eitt gróðurhúsanna, hjá Barra nálægt Egilstöðum. Þar var þó ekkert þroskað bygg sem hefði getað dreift sér. Spurningar hafa vaknað um það hvort erfðabreytt bygg geti frjógvað aðrar plöntur. Líffræðiprófessorinn Kesara Jónsson gagnrýnir að erfðabreytt bygg skuli ræktað í húsum sem standast ekki íslenskt veðurfar. „Það er ekki í lagi. Það opnar fyrir að plönturnar eða fræin komist út. En það er heppilegt að nú er hávetur og ef plönturnar fjúka út, þá eru engar líkur á því að þær geti lifað af.“

Hjá Umhverfisstofnun er málið litið alvarlegum augum. Gróðurhúsið var skoðað áður en leyfið var veitt, og talið að það gæti staðið af sér vind upp á 42 metra á sekúndu. Í fyrrinótt fór vindhraðinn upp í 47 metra í hviðum. „Auðvitað getur svona gerst. Aðalatriðið er að það sé brugðist hratt við, þetta sé lagað, og það verður gert,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun. „Það er búið að senda fulltrúa frá Umhverfisstofnun á staðinn. Ég er ekki búin að fá skýrslu frá þeim, en á von á henni innan tíðar. Þannig að við sjáum hvort það er ástæða til að vinna frekar með starfsleyfið, hvort það sé ástæða til að gera breytingar á því í kjölfarið.“