Rannsaka kúluskít á Íslandi

18.08.2013 - 14:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Líffræðingar sem kortleggja gróður í íslenskum vötnum hafa fundið kúluskít í tveimur stöðuvötnum í sumar. Þar er hann mun minni en í Mývatni og ólíklegt að hann breiði úr sér. Kúluskíturinn verður skoðaður betur næsta sumar.

Kúluskítur er ákveðið vaxtarform grænþörungs. Talið er að hann lifi einungis á örfáum stöðum í heiminum og þá aðallega í tveimur stöðuvötnum, Mývatni og Akanvatni í Japan þar sem hann finnst í stórum breiðum.

„En síðan eru nokkur vötn sem eru með litlar kúlur sem eru ekki nema svona 4 cm í þvermál,“ segir Árni Einarsson, líffræðingur hjá Náttúrurannsóknarstöðinni við Mývatn.

Kúluskítur í því formi hefur fundist í Kringluvatni í Suður-Þingeyjarsýslu, Miklavatni í Aðaldal og í Snjóholtsvötnum á Héraði. Í sumar hefur hópur líffræðinga sem fæst við að kortleggja gróður í íslenskum vötnum rekist á kúluskít í tveimur vötnum til viðbótar. Í Vatnshlíðarvatni í Skagafirði og Selvallavatni á Snæfellsnesi.

„Þannig að menn eru að finna þetta svona á fleiri stöðum eftir því sem að athyglin beinist að þessu meira,“ segir Árni. 

Kúluskíturinn er nær horfinn úr Mývatni og ekki vitað hvað veldur. Árni segir að kúluskíturinn sem finnst í öðrum vötnum hér á landi sé mun smærri og efast um að hann eigi eftir að breiða úr sér þar líkt og hann gerði í Mývatni: „Það er mjög erfitt að segja um það við eigum eftir að skoða þessi vötn og munum reyna að gera það næsta sumar. Við vitum ekki alveg nógu mikið um það hvernig lífsskilyrði hans eru í þessum vötnum þannig að það er kannski of snemmt að segja til um það en það er ekki mjög líklegt.“

Ekki er útilokað að kúluskítur finnist víðar og segir Árni fréttir berast af því að það sé kúluskítur í fleiri vötnum.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi