Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Rannsaka endurtekið þunglyndi

03.03.2016 - 11:50
©Kristinn Ingvarsson
Ragnar Pétur Ólafsson, dósent í sálfræði við HÍ stjórnar rannsókninni Mynd: Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson - HÍ
Rannsókn á endurteknu þunglyndi fer nú fram við sálfræðideild Háskóla Íslands. Rannsóknin stendur fram á vor og er almenningi boðið að taka þátt í henni. Ragnar Pétur Ólafsson, dósent í sálfræði, stjórnar rannsókninni. Hann segir að markmiðið sé að finna út hvers vegna sumir fá þunglyndi aftur en aðrir ekki.

Þunglyndi er eitt af algengustu geðrænum vandamálum sem fólk á við að stríða. Talið er að 15-20% fólks fái þunglyndi í einhverri mynd einhvern tímann á ævinni og gera má ráð fyrir því að á hverjum 12 mánuðum séu
5-6% fullorðinna greind með þunglyndi.

Ragnar Pétur segir að verið sé að rannsaka áhættuþætti fyrir þróun þunglyndis, þ.e. hvað veldur og viðheldur því. Leitað er að fólki sem hefur áhuga á að taka þátt í rannsókninni.

„Við erum annars vegar á höttunum eftir fólki, sem hefur enga fyrri sögu um þunglyndi, telur sig ekki hafa áður upplifað þunglyndi og við ætlum að bera það saman við fólk sem hefur fyrri sögu um þunglyndi.“
 

Rannsókn af þessu tagi hefur ekki áður verið gerð hér á landi. Hún hófst í byrjun árs og stendur fram á vor. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í henni eru hvattir til að senda tölvupóst á [email protected] eða skrá sig á vefsíðu rannsóknarinnar. Vonast er til að hægt verði að ná í 100 manns.

„Sumir, sem fengið hafa þunglyndi, fá það aftur. Það getur jafnvel gerst þrátt fyrir að fólk hafi farið í árangursríka meðferð og unnið bug á þunglyndi áður. Við viljum reyna að finna út af hverju þetta gerist, hvað skilur á milli þeirra sem falla ekki aftur í þunglyndi og þeirra sem falla aftur í þunglyndi jafnvel þrátt fyrir árangursríka meðferð. Það er dálítið spurningin sem við ætlum að reyna að leita svara við í rannsókninni.“ 
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV