Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Rannsaka bláa móðu á Austurlandi

06.09.2014 - 17:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Blá móða hefur legið yfir víða á Austurlandi síðustu þrjá sólarhringa. Íbúar hafa rakið þetta til eldgossins í Holuhrauni og sumir kvartað undan óþægindum. Móðan sést á gervihnattamyndum sem Veðurstofan notar og gefa þær til kynna að móðan sé frá eldstöðvunum.

Umhverfisstofnun sendi mæla austur í dag til að greina efnin í móðunni og styrk þeirra. Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, vonast til að niðurstöður mælinganna liggi fyrir í kvöld. „Allt sem við höfum í höndunum bendir til að þetta sé mökkur frá gosinu. Það er mjög áhugavert og gagnlegt að vita hversu mikill styrkur hans er. Þær upplýsingar sem við höfum núna og þær myndir sem ég hef séð gefa til kynna að þetta sé þá þessi gráblái brennisteinssvipur á þessu. Að sjá myndi maður áætla að þetta væri eins og í mengaðri stórborg. Þetta er engin svakaleg mengun að sjá en það er mjög mikilvægt að fá mælingu og við ætlum að reyna að fá hana núna á eftir.“