Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Rannsaka áhrif hryðjuverkaógnar á almenning

26.03.2018 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Þrír fræðimenn við Háskóla Íslands hafa fengið samtals 32,5 milljónir króna styrk til að rannsaka áhrif hryðjuverkaógnar á borgara og einnig áhrif lagasetningar gagn hryðjuverkum á viðhorf fólks til lýðræðis og trausts á stjórnvöldum.

Styrkurinn kemur frá Nordforsk, norrænni stofnun sem starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Á dögunum var rúmlega 120 milljónum úthlutað til fræðamanna á Norðurlöndum til að rannsaka áðurnefnd viðfangsefni.

Eitt verkefnanna sem hljóta styrk núna er Hryðjuverkaógn á Norðurlöndunum: Áhrif á borgara, lagasetningar og lögmæti. Íslensku fræðimennirnir Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar, Hulda Þórisdóttir, dósent í stjórnmálafræði, og Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði eru meðal aðstandenda þess. Verkefnið er undir forystu Dag Arne Christensen frá UNI Research AS í Noregi en auk þeirra koma fræðimenn Háskólanum í Bergen og Gautaborgarháskóla að verkefninu.

Í tilkynningu frá Háskóla Íslands segir að lýðræðisríkjum, þar á meðal norrænu ríkjunum, standi mikil ógn af hryðjuverkum sem skapa þrýsting á lýðræðislega kjörin stjórnvöld. Eitt af mikilvægustu verkefnum þeirra sé að tryggja öryggi borgaranna. Ef borgarar upplifi óöryggi og að lögum og reglum sé ekki framfylgt geti það grafið undan trausti á stjórnvöldum. Aðgerðir til að tryggja öryggi borgara geti þó einnig grafið undan grunnstoðum lýðræðisins. Harðar aðgerðir eins og húsleitir án heimilda, handtökur, símahleranir og langt gæsluvarðhald án dómsúrskurðar geti legið beint við til að tryggja öryggi borgaranna en um leið séu þær í andstöðu við borgaraleg réttindi. Mikil togstreita geti því skapast á milli öryggissjónarmiða og frelsissjónarmiða í ríkjum sem byggja á lýðræðisgildum. Meginrannsóknarspurning verkefnisins er hversu vel lýðræðisríki geti staðið af sér þá ógn sem þau standa frammi fyrir vegna hryðjuverka.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir