Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Rangri mynd haldið að fjölmiðlum og almenningi

29.03.2017 - 12:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis, segir að í gögnum nefndarinnar um sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum komi fram fyrst og fremst einbeittur ásetningur um að engir aðrir en þeir sem nytu fyllsta trausts fengju að vita af því hvernig kaupunum á hlutnum væri háttað.

Kjartan mætti á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í hádeginu í dag. Þar greindi hann frá skýrslu rannsóknarnefndarinnar um aðkomu Hauck and Aufhäuser að kaupunum á Búnaðarbankanum. Kjartan segir að ákvarðanir hafi verið teknar í mikilli samvinnu Ólafs Ólafssonar fjárfestis og þeirra sem unnu í hans þágu. Ekkert bendi til þess að nokkur sem kom að viðskiptunum hafi talið að þau væru siðferðislega eða lagalega ámælisverð. Áhersla hefði verið lögð á leyndina og að aðrir en þeir sem hægt væri að treysta fullkomlega fengju ekkert að vita.

Kjartan sagði að það hefði verið útilokað fyrir nefndina að fjalla um meinta refsiverða háttsemi. Þá væru fjórtán ár liðin frá viðskiptunum og hugsanleg brot mögulega fyrnd.

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var einn af þeim fyrstu til að lýsa efasemdum um raunverulega aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser á sínum tíma. Hann spurði Kjartan að því hvort það hefði verið forsenda fyrir sölunni á Búnaðarbankanum að erlendur banki kæmi að viðskiptunum. Kjartan svaraði því að það hefði ekki verið ófrávíkjanlegt skilyrði sem réði úrslitum. Nefndin telji ljóst að aðkoma bankans hafi verið grundvallarforsenda þess að S-hópnum var boðið í viðræður. Brynjar Níelsson, formaður nefndarinnar spurði á sömu nótum; hvort stjórnvöld hefðu fengið villandi upplýsingar.

Kjartan benti á að við undirritun á sölu Búnaðarbankans hafi verið viðstödd þau Geir Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskiptaráðherra, Ólafur Ólafsson fjárfestir og Peter Gatti, framkvæmdastjóri og meðeigandi Hauck & Aufhäuser. Enginn hafi verið við fyrir hönd Welling & Partners eða Kaupþings, sem þó bar alla áhættu og tryggðu Hauck & Aufhäuser skaðleysi. 

 

 
Frettir's picture
Fréttastofa RÚV