Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ragnheiður íhugar framboð til formanns KSÍ

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ragnheiður íhugar framboð til formanns KSÍ

13.01.2019 - 20:55
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrverandi þingmaður, er að íhuga að bjóða sig fram sem formaður Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ). Hún segir í samtali við fréttastofu ekki vera búna að taka neina ákvörðun en sé að kanna baklandið.

„Knattspyrnan almennt er ekki einkamál karlmanna,“ segir Ragnheiður sem telur starfsreynslu sína og fyrri störf geta nýst vel í starfi formanns KSÍ. „Mér finnst ástæða að skoða þetta.“

Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður KSÍ, tilkynnti nýverið að hann hygðist gefa aftur kost á sér á næsta ársþingi sambandsins 9. febrúar. Hann laut í lægra haldi í formannskosningu gegn Guðna Bergssyni, núverandi formanni, fyrir ári síðan. Guðni sækist eftir endurkjöri á þessu ári.

Ragnheiður fleytti hugmyndinni um framboð á Facebook fyrr í kvöld: „Í ljósi þess að Geir Þorsteinsson ætlar að bjóða sig fram til formanns KSÍ á nýjan leik þá er ég að velta fyrir mér að gefa kost á mér líka. Held að það gæti hleypt fjöri í kosninguna. Ég hef mikla stjórnunarreynslu sem og reynslu af félagsmálum, áhugamanneskja um fótbolta frá barnsaldri bæði sem dóttir og mamma, held að þessi reynsla mín gæti nýst í starfinu.“

Tengdar fréttir

Íþróttir

Geir sagði Guðna frá framboði sínu í morgun

Íþróttir

KSÍ „þarf að gæta aðhalds í rekstri“

Fótbolti

Geir Þorsteinsson býður sig fram til formanns