Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Raggi Bjarna 85 ára: „Hvaða aldur?“

Raggi Bjarna 85 ára: „Hvaða aldur?“

17.03.2019 - 21:42

Höfundar

Einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar, Ragnar Bjarnason, fagnar 85 ára afmæli sínu á þessu ári. Að því tilefni blés hann til stórtónleika í Hörpu í kvöld, þar sem hann fer yfir ferilinn með aðstoð fjölmargra gesta. Raggi segir aldurinn ekki hafa nein áhrif á tónleikahöld svo lengi sem hann hafi gott fólk sér við hlið.

Fréttastofa spjallaði við Ragnar skömmu fyrir tónleikana í Hörpu í kvöld, eins og sjá má í spilaranum hér að ofan.

„Mér líður náttúrulega alveg ótrúlega vel,“ sagði Ragnar. „Auðvitað hef ég vissar... og þó, ég er ekkert voðalega „nervous“. Um leið og fólkið kemur inn, þá hjálpar það mér við að klára þetta og ná bara þessari gleði og stemningu sem kemur í húsið.“

Er ekkert mál að halda svona tónleika þegar maður er kominn á þennan aldur?

„Hvaða aldur, hvaða aldur ertu að tala um? Sko, það er ekkert mál að halda tónleika. Svo lengi sem að þú getur sungið og hefur gott fólk með þér og gott fólk í salnum, þá er enginn vandi að halda tónleika. “

Talandi um fólkið í salnum, það er uppselt í kvöld og þú ert búinn að bæta við auka tónleikum í apríl. Áttirðu von á þessum viðtökum? 

„Ég get eiginlega ekki svarað því sko. Því þessi deild er ekkert hjá mér. Það er Einar Speight sem sér um þetta allt saman. Ég hugsaði bara ekkert út í það sko. “

Fjöldi listamanna, á aldrinum 19-90 ára, koma fram á tónleikunum með Ragga. Þeirra á meðal er Þorgeir Ástvaldsson, sem segir sérstaklega skemmtilegt að koma fram með afmælisbarninu.

„Það er eitt samfellt ævintýri. Hann hefur kennt mér að tónlistin er bæði í dúr og moll og alltaf smá gleði í millikaflanum. “

Þorgeir spilar meðal annars á merkilegt hljóðfæri á tónleikunum.  „Þetta er fyrsta píanó-harmonikka sem flutt var hingað til Íslands og það var Bjarni Böðvarsson, faðir Ragga, sem tók hana til gagns, og það eru ótal hljóðfæraleikarar sem hafa spilað á hana og hlustað. Frábært hljóðfæri,“ segir Þorgeir.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Karl Orgeltríó og Raggi Bjarna í Stúdíói 12