Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rafrettur árangursríkari en plástrar og tyggjó

31.01.2019 - 05:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Þeir sem nota rafrettur eru tvöfalt líklegri til að hætta að reykja sígarettur en þeir sem nota nikótínplástra eða -tyggjó. Þetta kemur fram í nýrri breskri rannsókn.

Rannsóknin nær til nærri 900 Breta sem sem höfðu reykt lengi, og leituðu til heilbrigðisyfirvalda eftir hjálp til að hætta. Breskir lýðheilsusérfræðingar segja niðurstöðuna ekki koma á óvart, enda er þeirra reynsla að tilkoma rafretta hafi minnkað reykingar í landinu. Bandarískir sérfræðingar eru ekki jafn spenntir fyrir niðurstöðu rannsóknarinnar, þar sem þeir telja rafrettur leiða til nikótínfíknar og fá börn til þess að byrja að reykja.

Að sögn Guardian var rannsóknin framkvæmd þannig að þeim sem leituðu aðstoðar var ýmist bent á rafrettur eða nikótínplástra, -sprey eða -tyggjó. Allir fengu þátttakendurnir einnig aðstoð sérfræðinga. Að ári loknu höfðu um 18% þeirra sem notuðu rafrettur hætt að reykja, en nærri 10% hinna.

Þetta er í fyrsta sinn sem rannsókn af þessu tagi er gerð, þar sem rafrettur eru bornar saman við lyf sem notuð eru til þess að aðstoða fólk við að hætta að reykja. Peter Hajek, prófessor við Queen Mary háskólann í Lundúnum, segir rannsóknina geta haft áhrif á ráðgjöf til Breta sem vilja hætta að reykja. Hann segir að þrátt fyrir að rafrettur hafi hjálpað fjölmörgum við að hætta að reykja hafi heilbrigðissérfræðingar ekki viljað mæla með notkun þeirra. Hingað til hafa þeir bent á ónægar rannsóknir, en þessi gæti breytt því viðhorfi.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV