Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Rafrettuóhöpp vel þekkt í flugheiminum

Mynd: Wikimedia commons / Wikimedia commons
Flugóhöppum sem tengjast svokölluðum liþíum-rafhlöðum hefur fjölgað á síðastliðnum árum. Rafhlöðurnar eiga það til að ofhitna og við það kviknar í þeim. Þær eru orkumeiri en venjulegar rafhlöður og er meðal annars að finna í fartölvum, símum og rafrettum. Á vef Alþjóðasambands flugfélaga segir að á síðastliðnum árum hafi orðið nokkrir alvarlegir eldsvoðar í háloftunum af völdum rafhlaðnanna, sem hefðu getað leitt til stórslyss.

Eldur kom upp um borð í flugvél Wizz air í gærkvöldi vegna rafrettu. Vélin var á leið frá Keflavík til Wroclaw í Póllandi og var komin yfir Mýrdalsjökul þegar henni var snúið við. Hún lenti heilu og höldnu á Keflavíkurflugvelli, rétt fyrir átta. 

„Það virðist vera svo að það hafi kviknað í rafsígarettu í farangurshólfi ofan sætanna, þeirri sígarettu var síðan komið og kastað inn á klósett og þá fer eldvarnarkerfið væntanlega í gang og ljóst að það er eldur um borð.“

Sagði Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum í samtali við fréttastofu í gærkvöldi.

Það er eitt að eldur brjótist út í lokuðu rými, mörgum kílómetrum fyrir ofan yfirborð jarðar, annað að liþíum-rafhlöðubrunar eru sérstaklega hættulegir. Í rafhlöðunum er mikil, samþjöppuð orka. Loginn er ákaflega heitur og rafhlöður sem springa geta gefið frá sér eiturefni sem límast við húðina, ekki ósvipað eldsprengjuefni eða napalmi, segir einn sérfræðingur í samtali við bandarísku samtökin Consumer reports. Þá getur eldur af þessu tagi verið þrálátur, sprottið upp á ný þegar útlit er fyrir að búið sé að slökkva hann. 

Í fræðslumyndbandi á heimasíðu Alþjóðasambands flugfélaga er varað við hættunni. Þar segir að nú sé meira um það en áður að farþegar hafi með sér þráðlaus raftæki hvers konar, annaðhvort í innrituðum farangri eða handfarangri og þetta eigi eftir að aukast verulega á næstu árum. Hver flugfarþegi sé kannski með nokkur tæki sem ganga fyrir liþíum-rafhlöðum; síma, fartölvu, heyrnartól, rafrettu. Við þetta bætist að nú er komin fram ný tækni sem gerir rafhlöður enn orkuríkari og þar með enn hættulegri, kvikni í þeim. Því sé mikilvægt að reglum um þessi tæki sé fylgt í hvívetna. Síðastliðin ár hafi komið upp tilvik þar sem vélar voru hætt komnar vegna eldsvoða af þessu tagi.

Bannaðar í innrituðum farangri

Sumarið 2015 setti Alþjóðaflugmálastofnunin reglur sem kveða á um að rafrettur megi einungis hafa í handfarangri, nú eða í vasanum. Þær mega ekki vera í innrituðum farangri. Þá er bannað að hlaða þær um borð og að sjálfsögðu bannað að nota þær en það er ekkert nýtt. Stofnunin nefndi rafrettur fyrst í leiðbeiningum sínum árið 2014, þá hvatti hún ríki til þess að ráðleggja flugfélögum að banna rafrettur í innrituðum farangri. Hugsunin á bak við regluna er þessi: Ef það kviknar í þeim er betra að hafa þær í farþegarýminu, þá er hægt að bregðast við. 

Þetta á ekki við um önnur algeng tæki sem ganga fyrir liþíum-rafhlöðum, svo sem fartölvur og síma, þau má hafa í innrituðum farangri. Þó eru dæmi um að raftæki með liþíum-rafhlöðum séu bönnuð alfarið. Svokölluð svifbretti mega hvorki vera í handfarangri né innrituðum farangri. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Svifbretti. Þetta vilja flugfélög ekki sjá.

Hættan eykst þegar átt er við retturnar

Haustið 2015 bönnuðu stjórnvöld vestanhafs rafrettur í innrituðum farangri, bannið var til bráðabirgða en nokkrum mánuðum síðar, í maí 2016 var ákveðið að það skyldi vera varanlegt. Reglurnar banna farþegum líka að hlaða rafsígarettur um borð þar sem af því er líka íkveikjuhætta. Í samtali við New York Times segir fulltrúi stjórnvalda að retturnar geti ofhitnað og kviknað í þeim, gleymist að slökkva á þeim áður en þær eru settar ofan í tösku. Hættan hafi aukist upp á síðkastið vegna þess að færst hefur í aukana að eigendur rafrettnanna eigi við þær eða breyti þeim sjálfir með einhverjum hætti.

Mynd með færslu
 Mynd: Milla Ósk Magnúsdóttir - RÚV
Á Keflavíkurflugvelli.

Eiga að vera með verklagsreglur

Reglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar eiga líka við á Íslandi en flugfélög geta sett sér enn strangari reglur, til dæmis bannað rafrettur alfarið um borð. Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, segir að flugfélögin eigi að vera með verklagsreglur um hvernig áhafnir skuli bregðast við liþíum-bruna svo ekki skapist veruleg hætta, „sem eru í þeirra rekstrarhandbókum og yfirfarnar reglulega í eftirliti.“

En hvernig er brugðist við? 

„Viðbrögðin eru væntanlega þau að þessum græjum er komið fyrir í eldföstum hólfum og til þess notaður búnaður sem á að vera um borð og áhafnir þekkja.“ 

Reglur skoðaðar út frá tilvikum sem koma upp

Það hefur líka komið fyrir að það kvikni í öðrum tækjum, fartölvum og símum til dæmis. Er ástæða til að hafa áhyggjur af því að það kvikni í þessum tækjum í innrituðum farangri? 

„Það er auðvitað alltaf full ástæða til að vera vakandi fyrir mögulegri hættu og það er auðvitað alltaf í umræðunni hvernig sé hægt að tryggja öryggi farþega sem best. Þetta er í raun í sífelldri mótun. Ef einhver atvik verða þá verða þau umræðugrundvöllur fyrir því hvort hægt sé að koma hlutunum fyrir með öðrum og tryggari hætti.“

Alltaf alvarlegt

Hún segir það alltaf alvarlegt atvik þegar eldur kemur upp í flugvél, „það er ekki léttvægt en ýmislegt getur komið upp og verklagsreglur í rekstrarhandbókum eiga að tryggja að hægt sé að bregðast við óvæntum atburðum sem þó eru að einhverju leyti fyrirsjáanlegir.“ 

160 atvik í Bandaríkjunum síðastliðna þrjá áratugi

Gögn Flugmálaeftirlits Bandaríkjanna sýna að frá því í mars 1991 og þar til í maí á þessu ári hafa í Bandaríkjunum verið skráð 160 atvik sem tengjast liþíum-rafhlöðum, ýmist flugatvik eða atvik á flugvöllum. Átján atvik hafa verið skráð á þessu ári, þar af 12 í farþegaflugi. Í fyrra voru þau 31, árið þar á undan 16.

Þann 14. maí á þessu ári sprakk til dæmis rafsígaretta í bakpoka manns á Seattle-flugvelli. Annan maí kviknaði í kassa með fartölvum í vöruflutningaflugi. Þann 19. febrúar ofhitnuðu hljóðeinangrandi heyrnartól farþega um borð í Vél Air China, farþeginn brenndist á andliti og hálsi, hann kastaði heyrnartólunum á gólfið og flugliði hellti á þau vatni til að kæla þau. Dæmin eru fleiri, í desember í fyrra þurfti vél American Airlines sem var á leið frá Dallas til Indianapolis að nauðlenda í Little Rock, Arkansas. Í það skiptið hafði farþegi verið að reykja á salerni vélarinnar. Farþegar voru mjög óttaslegnir. 

Hvað segja íslensku félögin? 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Í reglum Icelandair er minnst á liþíum-rafhlöður. Þar segir að aukarafhlöður fyrir myndavélar, síma eða fartölvur megi einungis flytja í handfarangri. Þá séu skemmdar, bilaðar eða endurkallaðar rafhlöður og raftæki með slíkar rafhlöður bönnuð um borð. Ef slíkur varningur er óvart tekinn um borð þarf farþegi að slökkva á tækinu og gæta þess að ekki kvikni óvart á því. Hann þarf að hafa það hjá sér og má ekki hlaða það. Þá á hann að láta áhöfn vita af því þegar í stað ef tæki með skemmdum rafhlöðum ofhitnar, gefur frá sér reyk, týnist eða fellur á milli sæta. Ekki náðist í upplýsingafulltrúa Icelandair við vinnslu fréttarinnar og því liggur ekki fyrir hvort og þá hvernig tryggt er að bilaðar rafhlöður séu ekki teknar um borð.

Wow air tilgreinir í reglum sínum að rafhlöður megi ekki hafa í innrituðum farangri og einungis megi vera með tvær vararafhlöður í handfarangri. Þá er þar tiltekið sérstaklega að símar af gerðinni Samsung Galaxy Note 7 séu stranglega bannaðir í öllum flugvélum félagsins, þeim sem eiga slík símtæki og reyna vísvitandi að fara í kringum reglurnar verði vísað frá borði. Samsung innkallaði símana í fyrra þar sem rafhlöðurnar áttu til að springa. Þessir símar eru líka bannaðir í vélum Icelandair. 

Enginn sérstakur útbúnaður

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow air segir í skriflegu svari við fyrirspurn Spegilsins að flugliðar séu þjálfaðir til að takast á við svona aðstæður. Þá séu í gildi verklagsreglur. Hún segir að ekki hafi komið upp brunatilvik hjá Wow og að ekki sé krafa um sérstakan útbúnað til að takast á við bruna liþíum-rafhlaðna. Wow air fari eftir alþjóðlegum lögum og reglum og samkvæmt þeim eigi alltaf að vera ákveðinn öryggisbúnaður um borð, svo sem slökkvitæki. 

Sumir fjárfest í sérbúnaði

Flugmálaeftirlit Bandaríkjanna ráðleggur áhöfnum, samkvæmt grein Consumer report, að nota halón-slökkvitæki til að minnka umfang eldsins, næst sé mikilvægt að kæla rafhlöðuna því annars er líklegt að það kvikni í aftur. Best sé að gera þetta með því að dýfa tækinu í vatn. Það sé þó ekki endilega hættulaust, sá sem dýfir tækinu í vatn geti fengið rafstuð, þá geti þetta orðið til þess að dreifa eiturefnum enn frekar. Það þurfi líka mjög mikið vatn, ef það á til dæmis að kæla rafhlöðu í fartölvu með þessum hætti, best væri þá að setja hana í kar fullt af vatni. Vandinn er að yfirleitt er æskilegt að flytja tækið en það getur verið hættulegt og er ekki endilega auðvelt. Hitinn er gríðarlegur og svo gæti rafhlaðan sprungið, þeytt frá sér eiturefnum sem límast á húðina. Á síðu samtakanna segir að nokkur bandarísk flugfélög hafi keypt sérstakan búnað til að bregðast við þessum eldsvoðum, búnaðurinn samanstendur af hönskum og gleraugum, málmskel sem hægt er að setja tækið sem brennur í og sterkri áltösku sem skelin er síðan sett ofan í. Hún á að koma í veg fyrir að eiturgufur sleppi út. Loks má tappa vatni á áltöskuna til að kæla rafhlöðuna niður. Hér má sjá hvernig búnaðurinn virkar. 

Rafrettur með innbyggðan veikleika

Það eru fjölmörg dæmi um að rafrettur hafi sprungið og valdið brunatjóni eða eigendum sínum skaða. Bandaríska almannavarnastofnunin hefur rannsakað þessi tilvik sérstaklega. Í skýrslu frá árinu 2014 kemur fram að það sé ákveðinn veikleiki í hönnun rafrettna sem geri það að verkum að rafhlöðurnar í þeim eigi frekar á hættu að eyðileggjast en rafhlöður í símum og tölvum, þær séu illa varðar. Það sé því meiri hætta á að þær springi, með blossum og eldglæringum. Niðurstöður almannavarnastofnunarinnar benda til þess að í 80% tilfella séu retturnar í hleðslu þegar þær springa og í 8% tilfella í notkun. 

 

Leiðrétting: Í hljóðútgáfu pistilsins segir að fræðslumyndband um hættu afliþíum-rafhlöðum sé að finna á síðu Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, hið rétta er að myndbandið er á vefsíðu Alþjóðasambands flugfélaga. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV