Rafrettunotkun hætt að aukast

28.08.2019 - 09:46
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Konur nota rafrettur nú í meira mæli en karlar sem hafa dregið úr notkuninni. Sjö prósent kvenna og fimm prósent karla veipa og hefur notkunin í fyrsta sinn ekki aukist milli ára. Fleiri nota munntóbak.

„Stóru fréttirnar og það ánægjulega er að það dregur stöðugt úr reykingum. Við mælum reykingar núna meðal fullorðinna í kringum sjö til átta prósent sem er mikil breyting. Fjöldi þeirra sem reykja hefur verið að minnka stöðugt í áratugi,“ segir Viðar Jensson, verkefnastjóri hjá Embætti landlæknis.

Viðar segir erfitt að skýra hvers vegna notkun á rafrettum er ekki lengur vaxandi. „Við sjáum að ungir karlmenn eru að auka það að nota tóbak í vör og ungar konur minnka veipið ekki eins mikið og strákarnir. Svo sjáum við líka að fólk sem hefur byrjað að veipa er nú að hætta.“ Ekki sé hægt að segja hvort umræðan um skaðsemi rafrettna hafi áhrif á neysluna á þessari stundu.

„Þar eru rannsóknir ekki komnar langt. Það eru mjög margar rannsóknir í gangi en langtímarannsóknir taka tíma. Þetta er gufa og það eru óvissuþættir og efni sem á eftir að rannsaka hvaða áhrif hafa. Menn beina spjótunum svolítið að bragðefnunum. Hvaða áhrif það hefur að anda þessum bragðefnum ofan í lungun. Í rauninni á alveg eftir að koma í ljós hversu skaðlegt það er,“ segir Viðar.

Umræðan þarf að vera tvískipt

Hann bendir á að skipta þurfi umræðunni í tvo hluta. Annars vegar um þá sem  hætta að reykja og nota rafrettur þess vegna og hins vegar ungt fólk sem byrjar að veipa án þess að hafa áður reykt.

„Varðandi unga fólkið þá tóku gildi lög um rafrettur 1. mars. Það er rétt að minna á að samkvæmt þeim er bannað að nota rafrettur í öllum skólum landsins og það er ágætt að hafa í huga núna þegar skólar eru að byrja. Við sjáum í þessum ungmennarannsóknum hvað þetta eru stórir hópar sem nota rafrettur. Eins er þetta bara sýnilegt í samfélaginu. Á sama tíma mælast reykingar ekki í tíunda bekk til dæmis, sem er mikil breyting,“ segir Viðar.

Í nýlegri könnun Rannsóknar og greiningar kom fram að rétt tæpur fjórðungur framhaldsskólanema veipar daglega. „Við erum með mjög háa tíðni miðað við Norðurlöndin og sérstaklega meðal ungmenna. Þetta virðist hafa orðið að tískubylgju hér,“ segir Viðar. Bendir hann þó á að almennt séu Íslendingar framarlega þegar kemur að lítilli tóbaksnotkun, sífellt færri reyki hér á landi en tóbaksneysla sé að aukast annars staðar, til að mynda í Danmörku.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi