Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Raforkuverð til Norðuráls tengt markaðsverði

13.05.2016 - 13:48
Merki Landsvirkjunar utan á höfuðstöðvum fyrirtækisins.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Norðurál og Landsvirkjun hafa samið um að endurnýja raforkusamning fyrirtækjanna til fjögurra ára. Fram kemur í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun að fyrirtækin hafi samið um sölu á 161 megavatti af raforku. Kjörin á samningnum verða tengd við markaðsverð á raforku á Nord Pool raforkumarkaðnum í stað þess að tengja raforkuverð álverði.

Sá samningur sem nú er í gildi, rennur út í lok október 2019. Nýr samningur gildir frá nóvember 2019 til ársloka 2023. Samningsdrög Norðuráls og Landsvirkjunar verða send Eftirlitsstofnun EFTA – ESA – til forskoðunar.

Viðræður Norðuráls og Landsvirkjunar um endurnýjun raforkusamninga hafa staðið yfir í nokkurn tíma. Í desember í fyrra sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, að samningaviðræðurnar hafi veirð óvenju harðar.