
Rafmagni ekki skammtað lengur
Samkvæmt upplýsingum frá RARIK gekk brösulega að koma á stöðugu rafmagi á Raufarhöfn. Þar er nú búið að tengja aðra varavél og er skömmtun þar lokið.
Þá er búið að tengja Kópaskerslínu við aðveitustöð Silfurstjörnu og er rafmagn frá landskerfi því komið á Kópasker í gegnum dreifilínur RARIK milli Silfurstjörnu og Kópaskers. Keyrsla varavéla er því hætt á Kópaskeri og skömmtun lokið. Þó má búast við tímabundnu straumleysi þar á morgun.
Hjá Landsneti er lokið viðgerð á byggðalínuhringnum sem fór í sundur á tveimur stöðum í fyrrakvöld. Þá er viðgerð hafin á Breiðadalslínu 1 sem er í sundur í Dýrafirði. Norðanverðir Vestfirðir fá rafmagn frá varaaflsstöðinni í Bolungarvík meðan á viðgerð stendur.
Ekkert rafmagnsleysi er lengur hjá viðskiptavinum Landsnets og raforkuafhending að færast í eðlilegra horf á ný eftir óveðrið í fyrrakvöld.