
Rafmagn komið á í Hveragerði og Ölfusi
Þá er álag jafnan lítið og var enn minna nú, þar sem notendur voru beðnir að spara rafmagn og slökkva á gróðurhúsaljósum og öðrum orkufrekum raftækjum.
Halldór Guðmundur Halldórsson hjá bilanavakt Rarik sagði í samtali við fréttastofu að búið sé að tengja þrjár öflugar disilrafstöðvar við veitukerfið á svæðinu. Ein þeirra var sótt til Víkur í Mýrdal en tvær á Sauðárkrók, og talið er að þær muni duga til að sjá öllum notendum fyrir rafmagni í dag.
Halldór segir að svo virðist sem eitthvað högg hafi komið á kerfið í gær, með þeim afleiðingum að alvarleg bilun varð í 66 kV aflspenni í aðveitustöð Hvergerðinga og nágranna þeirra í Ölfusi. Hann verður tekinn niður og sendur til skoðunar og rannsóknar í Hafnarfirði, en annar spennir sóttur þangað í staðinn og tengdur í dag. Aðspurður hvort þetta séu ekki flóknir og erfiðir þungaflutningar segir Halldór svo ekki vera. Spennirinn sé ein 22 tonn að þyngd „og svolítill um sig," segir Halldór, „en við tökum af honum kælielementin til að minnka umfangið og þá kemst hann á einn tengivagn."