„Rafbílar eru farartæki framtíðar“

Mynd: RÚV Bogi Ágústsson / RÚV

„Rafbílar eru farartæki framtíðar“

09.07.2017 - 18:15

Höfundar

Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, er ekki í vafa um að rafbílar séu farartæki framtíðarinnar á Íslandi. Tæknin sé tilbúin, rafmagnið fyrir hendi, það þurfi bara að breyta hugarfari fólks. Rafmagnsbílum fjölgar nú á Íslandi sem og bílum sem eru knúnir rafmótor að hluta.

Aukið framboð rafknúinna bíla

Ákvörðun Volvo að bjóða kaupendum nýrra tegunda bíla, sem verksmiðjurnar framleiða með rafknúinni vél frá árinu 2019, er talin til marks um að æ fleiri séu tilbúnir til að kaupa slíka bíla.

Á undanförnum árum hafa flestir bílaframleiðendur heims boðið kaupendum rafmagnsbíla. Hægt er að fá bíla sem eingöngu ganga fyrir rafmótor og einnig bíla sem eru knúnir raforku og jarðefnaeldsneyti. Slíkum bílum fjölgar mjög, einnig á Íslandi og Bjarni Þór Júlíusson segir að þegar hann athugaði málið á vefsíðunni orkusetur.is þar sem þetta er skráð hafi hann séð að þar séu um 1100 hreinir rafbílar og 1100 blendingar, svona hybrid, tengiltvinn. 

Orka náttúrunnar hyggur á hraða fjölgun hleðslustöðva

Bjarni er sjálfur eigaandi rafbíls og er áhugamaður um slíka bíla. Orka náttúrunnar rekur nú 16 hleðslustöðvar fyrir rafbíla og ætlunin er að fjölga þeim mikið. Ætlunin sé að reisa allt að 100 stöðvar á þremur árum. Þar af séu 42 hraðhleðslustöðvar. Orka náttúrunnar vonist til að komast hringveginn í ár, en fyrirtækið sé í samvinnu við marga aðila þannig að það ráði þessu ekki eitt. Síðan verði uppbygging á Snæfellsnesi og vinsælum ferðamannastöðum eins og á Flúðum.

Noregur er fyrirmyndin

Bjarni Már segir að Íslendingar eigi að líta til Noregs þar sem stjórnvöld hafi lagt mikla áherslu á að fjölga kolefnishlutlausum bílum. Þar sé markviss uppbygging í gangi. Norðmenn hafi sett sér það markmið að hafa tvær hraðhleðslustöðvar á 50 kílómetra fresti.

Í fyrra voru nærri 30 af hundraði allra nýrra bíla, sem seldir voru í Noregi, kolefnishlutlausir bílar, rafbílar, tvinnbílar eða metanbílar. Hér á landi er þróunin mun hægari enn sem komið er.

Hvar á hlaða?

Margir setja fyrir sig að erfitt sé að hlaða rafbíla. Bjarni Már segir að það verði jafn auðvelt að fara á hleðslustöð og hlaða bílinn þegar rafbílar séu orðinn fjórðungur bílaflotans. Einsog staðan sé núna hlaði flestir rafbíla sína heima hjá sér. Margir geri það í vinnunni ef aðstæða er til þess. Bílarnir séu mest við heimili eða vinnustað og því eðlilegt að fólk vilji hlaða bíla sína á þessum stöðum. 

 

Hleðslustöðvar eru þegar við verslanir eins og IKEA í Garðabæ og Bjarni segir að vaxandi áhugi sé meðal verslunareigenda að koma upp hleðslustöðvum við verslanir sínar. Í Noregi séu hleðslustöðvar við suma McDonalds hamborgarastaði.

 

„Ég held að þetta verði hvati fyrir verslanir til að laða fólk til sín“ segir Bjarni.
 

Tengdar fréttir

Tækni og vísindi

Volvo veðjar á rafbíla

Tækni og vísindi

Volvo einhendir sér í rafbílavæðinguna