Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Rafbækur loks gefnar út á Íslandi

14.11.2011 - 21:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Félagar í Rithöfundasambandi Íslands samþykktu í kvöld fyrsta samning sem gerður hefur verið um útgáfu rafbóka hér á landi. Samningurinn er milli rithöfunda og Félags íslenskra bókaútgefenda og tryggir rithöfundum 25 til 30 prósent af heildsöluverði hverrar rafbókar.

Hlutur rithöfunda fyrir prentaðar bækur er 23 prósent af heildsöluverði. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson formaður samninganefndar rithöfunda segir að hér áður hafi menn talið að rithöfundar gætu fengið hærri hlut af rafbókum en nú sé ljóst að kostnaður útgefanda sé afar mikil af svokölluðum afritunarvörnum. Þær eigi að reyna að tryggja það að ekki sé hægt að afrita rafbækur og dreifa þeim ólöglega. Aðalsteinn telur að tvær til þrjár rafbækur komi út í tilraunaskyni fyrir jólin en svo hefjist rafbókaútgáfa fyrir alvöru á næsta ári.