Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Rætt um nýjan Evrópuher

07.11.2018 - 16:26
epa06572903 French President Emmanuel Macron meets with officers as he attends a military exercise at the military camp of Suippes, near Reims, France, 01 March 2018. The French president pays a visit to the military camps of Mourmelon and Suippes (Marne)
Emmanuel Macron Frakklandsforseti á heræfingu nærri Reims í vor. Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Landvarnaráðherrar og yfirmenn herja níu Evrópuríkja komu saman í París í dag til þess að leggja á ráðin um að stofna sameiginlegan her Evrópuríkja. Þau hyggjast koma upp herafla sem sé óháður Bandaríkjunum, til þess að tryggja öryggi sitt meðal annars gegn Rússlandi og Kína.

Frakkar fara fyrir stofnun hersins og ríkin sem taka þátt í undirbúningnum eru Þýskaland, Spánn, Holland, Belgía, Danmörk, Eistland og Portúgal. Auk þess ætlar Finland að eiga aðild að Evrópuhernum sem kallaður hefur verið EI2.

Hann á að geta brugðist við með litlum fyrirvara og sent á vettvang sameiginlegan her komi til átaka og brugðist við náttúruhamförum, flutt á brott almenna borgara og komið neyðarhjáp til nauðstaddra.

Skriður komst á stofnun EI2-hersins eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði ítrekað gagnrýnt Atlantshafsbandalagið, sem hefur verið hryggjarstykkið í öryggi Evrópu frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar. Herinn á að verða óháður bæði Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu, NATO.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, segir að það að Bandaríkjastjórn ætli að ónýtt mikilvægasta afvopnunarsamninginn við Rússland muni bitna á öryggi Evrópu.

Hann kallar herinn raunverulegan Evrópuher sem geti brugðist við gegn ógnum frá Rússlandi, Kína og jafnvel Bandaríkjunum undir hinum óútreiknanlega Donald Trump.

Á Parísarfundi landvarnaráðherrana í dag leggja ríkin níu fram sín forgangsmál og ákveða á hvaða svæðum sameiginlegur her komi að mestu gagni.

 

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir