Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ræningi gripinn eftir skothríð á lögreglu

Lögreglumaður
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Sérsveit lögreglunnar handtók í gær annan tveggja manna sem grunaðir eru um rán í skartgripaversluninni Gullsmiðjunni í Hafnarfirði í gær. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu bar kennsl á viðkomandi og komst í framhaldinu að því að hann væri á ferli í Reykjanesbæ.

Lögreglumenn úr sérsveitinni, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunni á Suðurnesjum hófu í kjölfarið leit að manninum. Nokkrir þeirra voru á gangi á Hringbrautinni í Reykjanesbæ um níuleytið í gærkvöldi þegar hinn grunaði gekk í flasið á þeim. Lagði hann þegar á flótta. Hann dró upp loftbyssu á hlaupunum og hleypti af nokkrum skotum, bæði upp í loftið og í átt að lögreglumönnunum sem eltu hann.

Hann hæfði þó engan og henti á endanum frá sér byssunni og herti sprettinn. Það kom fyrir ekki og var hann hlaupinn uppi og yfirbugaður skömmu síðar og fluttur til Reykjavíkur þar sem hann gistir fangageymslu. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa kennsl enn ekki verið borin á hinn ræningjann.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV