Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rændu tíu tyrkneskum sjómönnum

16.07.2019 - 14:12
Mynd með færslu
 Mynd: YouTube
Vopnaðir nígerískir mannræningjar réðust í gærkvöld um borð í tyrkneska flutningaskipið Paksoy 1 og höfðu tíu skipverja af átján á brott með sér. Tyrkneska fréttastofan Anadolu greindi frá ráninu í dag.

Í tilkynningu frá útgerð skipsins segir að sjóræningjar hafi ráðist um borð þegar það var á leið frá Kamerún til Fílabeinsstrandarinnar. Enginn farmur er í skipinu. Talið er að mannræningjarnir ætli að krefjast lausnargjalds fyrir sjómennina. Tilkynnt var um fjórtán árásir af þessu tagi í Nígeríu fyrstu þrjá mánuði ársins. Þær voru tuttugu og tvær á fyrsta ársfjórðungi 2018.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV