Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Rændu þýskri hjúkrunarkonu í Sómalíu

03.05.2018 - 06:25
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Vopnaðir menn réðust inn í höfuðstöðvar Alþjóða Rauða krossins í Sómalíu í gærkvöld og námu á brott þýska hjúkrunarkonu sem þar starfar á vegum samtakanna. Skrifstofa Afríkudeildar Rauða krossins staðfesti þetta á Twitter. Mennirnir réðust til atlögu um klukkan 20 að staðartíma, á skrifstofu samtakanna í Mogadisjú. Munu mannræningjarnir hafa farið inn og út um bakdyr skrifstofunnar til að forðast vopnaðan vörðinn sem stóð við aðalinnganginn.

Lögregla í Mogadisjú segir að víðtæk leit hafi verið sett af stað um leið og ljóst var hvað gerst hafði. Sú leit hefur enn ekki borið árangur. Ekkert hefur heyrst frá mannræningjunum enn, og ekkert er vitað um þá.  

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV