Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Rændu mann í hjólastól á heimili hans

Merki lögreglunnar á Íslandi.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar rán á heimili fatlaðs manns í hjólastól í Hálaleitishverfi í Reykjavík. Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að tilkynnt hafi verið um ránið á þriðja tímanum í nótt.

Þar segir að tveir karlar og kona hafi verið í íbúð hans, hrint honum úr hjólastólnum og rænt eigum hans, farsíma, tölvu og fleira. Að sögn lögreglu er vitað hverjir voru að verki. 

Líkamsárás í miðborginni

Í dagbók lögreglu kemur einnig fram að tveir karlar og kona hafi verið handtekin í miðborginni um hálf eitt leytið í nótt grunuð um líkamsárás. Þau eru grunuð um að hafa ráðist á dyraverði, hótanir og ofbeldi gegn lögreglu. Þau voru vistuð í fangageymslu. 

Reyndu að komast undan

Skömmu fyrir klukkan tvö í nótt veitti lögreglan bíl eftirför í vesturbæ Reykjavíkur eftir að ökumaður sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu. Í tilkynningu kemur fram að bíllinn hafi verið stöðvaður skömmu síðar og tvær ungar konur í honum handteknar. Þær eru grunaðar um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna og ítrekaðan akstur án þess að hafa öðlast ökuréttindi.  Konurnar voru vistaðar fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.  

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV