Ræðukeppni til styrktar konum í neyð

Kona á flótta frá Mjanmar. - Mynd: UN Women / UN Women

Ræðukeppni til styrktar konum í neyð

22.05.2018 - 08:19
Ungmennaráð UN Women á Íslandi heldur næstkomandi fimmtudag, 26.maí, fjáröflun til styrktar konum í flóttamannabúðum Róhingja. Fjáröflunin er sérstök en þau ætla að bjóða upp á ræðukeppni um kynjatengd málefni.

Alexandra Ýr van Erven, formaður ungmennaráðsins sagði nánar frá viðburðinum. Ræðukeppnin verður haldin á Bryggjan brugghús og verður með svipuðu sniði og Morfís keppnir. „Það verða tvö lið skipuð kjarnakonum sem að eru þaulreyndar og munu takast þarna á,“ segir Alexandra. „Við ætlum að fjalla um kynjakvóta, sem er skemmtilegt af því að það er alveg mál sem að deilt er um í samfélaginu,“ bætir hún við. Keppnin er hugsuð sem skemmtun er draumur ungmennaráðsins er samt sem áður sá að það verði líka einhver vitundarvakning.

Ræðukeppnin á fimmtudaginn verður fáröflun fyrir neyðaratkvarf kvenna í flóttamannabúðum Róhingja. Róhingjar eru þjóðflokkur sem að á ekkert ríkisfang og stór hluti þeirra býr í flóttamannabúðum í Bangladesh.

Grunnurinn að starfsemi ungmennaráðsins er að vera íslensku landsnefnd UN Women innan handar, vera vitundarvakning fyrir ungmenni, fara í skóla og halda viðburði ásamt því að skipuleggja fjáraflanir. Starfsár ráðsins klárast nú í byrjun júní þegar aðalfundur verður haldinn og ný stjórn kosin. 

Hægt er að nálgast allar helstu upplýsingar um viðburðinn og Ungmennaráðið sjálft á Facebooksíðu þeirra sem og á heimasíðu UN Women á Íslandi. 

Alexandra var gestur í Núllinu en hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

 

Tengdar fréttir

Asía

Hverjir eru Róhingjar?