Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ræðir vopnaburð lögreglu

29.04.2012 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Innanríkisráðherra hyggst skoða hvort heimila eigi aukinn vopnaburð lögreglumanna við almenn löggæslustörf. Hann vill fara varlega í að heimila slíkt, málið verði skoðað gaumgæfilega.

Samkvæmt nýrri könnun Landssambands lögreglumanna vill mikill meirihluti lögreglumanna fá leyfi til að bera rafbyssur við störf sín. Hluti lögreglumanna vill líka að settar verði skammbyssur í lögreglubíla að norskri fyrirmynd. Helstu rökin eru aukin harka í glæpaheiminum og niðurskurður á fjárheimildum lögreglu.  Hann hafi leitt til þess að lögreglumenn séu í síauknum mæli einir við störf. Fréttastofa Stöðvar 2 sagði frá málinu í gær.

 Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur skilning á áhyggjum lögreglumanna, en vill fara varlega í að efla vopnaburð löggæslumanna og minnir á að Víkingasveitin sé vel vopnum búin.

Ögmundi finnst eitt að bera vopn að staðaldri eða hafa aðgang að þeim sér til varnar. Hann telur að mjög varlega ætti að fara stöðugan vopnaburð. Allt  þurfi þetta að skoða.

 Hann segir að enn hafi ekkert formlegt erindi borist frá Landssambandi lögreglumanna vegna málsins. Niðurstöður könnunar þess verða kynntar í vikunni.

„Að sjálfsögðu er ég tilbúinn að ræða þessi mál. Ég deili áhyggjum lögreglunar, ef hún telur sig óvarða gagnvart vopnuðum ofbeldismönnum, en ég hvet engu að síður til varfærni í þessum efnum,“ segir Ögmundur.