Ræðir kynjahlutfall við stjórnendur

13.01.2014 - 13:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur boðað á sinn fund fulltrúa atvinnulífsins til að ræða um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja og skoða hvort lög um þau virka.

Samkvæmt lögum, sem tóku gildi í fyrrahaust, skyldi tryggja fyrir áramót að þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír væri hlutfall hvors kyns ekki lægra en 40 prósent.

Tölur Creditinfo sýna að hægt miðar í átt að jöfnun kynjahlutfalla í stjórnum, þrátt fyrir lagasetningu. Konur voru 23,1 prósent aðalmanna í stjórnum fyrirtækja í desember og hafði það hlutfall hækkað lítillega eftir lagasetninguna, úr 22,9 prósentum. Séu varamenn taldir með eru konur þriðjungur aðal- og varamanna í stjórnum.

„Það sem ég hef í hyggju að gera núna er að leita eftir sjónarmiðum atvinnulífsins. Ég hef heyrt bæði sjónarmið með þessari löggjöf og líka frá þeim sem eru henni andvígir,“ segir Ragnheiður Elín sem var á sínum tíma mótfallin lögunum en hún ítrekar að ekki hafi verið tekin ákvörðun um endurskoðun. „Þetta er ekki á mínum þingmálalista. Það sem ég er að gera núna er bara að kalla eftir viðhorfum og leita upplýsinga um það hvort að löggjöfin sé að virka. Ef ekki, eru einhverjar endurbætur sem hægt er að gera á henni, eigum við að gefa þessu meiri tíma, eða hvernig sjá menn fyrir sér að við getum gert þetta sem allra best?“

Frumatriði sé að ná þeim markmiðum sem sett eru um jafnrétti og að það komi samfélaginu til góða. Fundinn á að halda síðar í mánuðinum.