Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ræðir ferðaþjónustuna við yfirmann Strætó

25.02.2018 - 15:39
Bergur Þorri Benjamínsson, varaformaður Landsbjargar.
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV Brynjólfur Þór Guðmunds
Formaður Sjálfsbjargar, landsambands hreyfihamlaðra, segir að undanfarið hafi nokkrar kvartanir borist til samtakanna, vegna atvika sem upp hafa komið í ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Hann fundar í næstu viku með framkvæmdastjóra Strætó til að fara yfir hvernig bregðast eigi við.

Helga Hákonardóttir, móðir þroskahamlaðrar stúlku, sagði í fréttum RÚV í gær að ferðaþjónusta fatlaðs fólks hefði undanfarið ítrekað sótt dóttur hennar of seint, þar af tvisvar í þessari viku. Þá greindi Áslaug Ósk Hinriksdóttir, móðir annarrar fatlaðrar stúlku, frá því í vikunni að ferðaþjónustan hefði ekið dóttur hennar á rangt heimilisfang og hún skilin þar eftir.

Treysta ekki þjónustunni 100%

Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfsbjargar, landsambands hreyfihamlaðra, segir að undanfarið hafi nokkrar kvartanir borist til samtakanna.

„Það sem mínir félagsmenn og fleiri segja er að menn eru því miður ekki tilbúnir að treysta þjónustunni 100%. Menn nota hana frá degi til dags og það gengur alveg en við skulum segja að menn séu dálítið á tánum,“ segir Bergur.

„Svona tilfelli mega ekki koma upp“

Mikið var fjallað um ferðaþjónustu fatlaðs fólks í byrjun árs 2015, vegna margvíslegra mistaka sem gerð voru við aksturinn Þá var skipað framkvæmdaráð ferðaþjónustu fatlaðra sem ætlað var að hrinda af stað margvíslegum tillögum um úrbætur á þjónustunni.

Bergur segir úrbætur hafa tekist að einhverju leyti en ekki öllu. „Þjónustan er það persónuleg að svona tilfelli mega ekki koma upp. Við erum öll mannleg en það verður að lágmarka og nánast koma í veg fyrir að svona gerist.“

Bergur mun í næstu viku funda um stöðuna með Jóhannesi Rúnarssyni, framkvæmdastjóra strætó. Jóhannes sagði í samtali við fréttastofu í gær að ítarlega yrði farið yfir málin sem upp hafa komið og hvernig megi bregðast við þeim eftir helgi. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV