Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ræddu kvennaframboð á fjölmennum fundi

30.10.2017 - 22:23
Mynd: rúv / rúv
Á annað hundrað konur komu saman í kvöld til að ræða hugsanlegt kvennaframboð. Skipuleggjandi viðburðarins segir konur hafa fengið nóg af því að femínismi sé ekki hluti af hefðbundnum stjórnmálum hér á landi. 

Hlutfall kvenna á nýkjörnu Alþingi er lægra en það var á síðasta þingi. Nýtt þing er skipað 39 körlum og 24 konum, en á fyrra þingi voru 30 konur. Sóley Tómasdóttir fyrrverandi borgarfulltrúi stofnaði viðburð á Facebook undir miðnætti í gærkvöld undir yfirskriftinni Kvennaframboð? Þar segir: „Niðurstaða kosninganna liggur fyrir. Þrátt fyrir aðdraganda stjórnarslitanna, #höfumhátt og háværa kröfu kvenna um breytt samfélag hefur orðið alvarlegt bakslag í jafnréttismálum.“

„Ég veit að konur hafa fengið nóg af því að femínismi er ekki hluti af hefðbundnum stjórnmálum á Íslandi og þær munu leita svara hvernig við getum breytt því hér í kvöld. “

- Eruð þið að íhuga kvennaframboð?
„Það er einn af mjög mörgum möguleikum og það er alveg ljóst að við þessa stöðu verður ekki unað. Stjórnmálin verða að gera betur gagnvart konum og femínisma á Íslandi.“

Á annað hundrað konur komu á viðburðinn í kvöld. 

„Okkur er fyrst og fremst misboðið vegna þess að eftir allt sem á undan er gengið, eftir femínískar bylgjur undanfarinna ára og áratuga, þegar ríkisstjórn springur vegna kynferðisofbeldis- og leyndarhyggju, þá hefst hér kosningabarátta sem er á algjörlega hefðbundnum karllægum forsendum sem við erum ekki tilbúnar til. Það segir sig sjálft að við slíkar aðstæður verður niðurstaðan eins og hún er.  Þessu þarf að breyta. Flokkarnir verða að taka femínisma alvarlega ef við ætlum að breyta einhverju í þessu samfélagi. “

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV