Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ræddi mál Hauks á fundi sínum með Merkel

19.03.2018 - 15:09
epa06614266 German Chancellor Angela Merkel (L) and Prime Minister of Iceland Katrin Jakobsdottir talk after their joint press conference in the Chancellery, in Berlin, Germany, 19 March 2018. Both leaders discussed the bilateral relations of their
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók upp mál Hauks Hilmarssonar á fundi sínum með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í dag. „Þegar við ræddum stöðuna í Tyrklandi þá notaði ég tækifærið og óskaði eftir því að embættismenn okkar gætu leitað til kollega sinna í Þýskalandi um aðstoð í því máli í ljósi þess að við hefðum ekki reynsluna af málum eins og þessum og því var vel tekið,“ segir Katrín sem kveðst ekki geta tjáð sig neitt frekar um þetta að svo stöddu.

Talið er að Haukur hafi fallið í sprengjuárás tyrkneska hersins í Afrín-héraði í Sýrlandi í lok síðasta mánaðar. 

Enn hefur ekki fengist formleg staðfesting á því hvort Haukur sé látinn og móðir hans, Eva Hauksdóttir, sagði í færslu á blogg-síðu sinni í síðustu viku að það eina sem hægt væri að slá föstu væri „að við vitum ekki hvort Haukur er lífs eða liðinn og við verðum að leita með því hugarfari að hann sé á lífi og í lífshættu.“

Katrín og Merkel áttu tæplega klukkustunda langan fund og Katrín segir hann hafa gengið vel og verið mjög gagnlegan. Þær hafi farið yfir málefni flóttamanna og þróunarsamvinnu og rætt mikilvægi þess fyrir hin vestrænu ríki að efla þau mál. „Og síðan spurði Merkel mikið um stjórnmálaástandið á Íslandi, sýndi því mikinn áhuga og virtist vera mjög vel inni í okkar málum.“ Þá var sú óvenjulega staða sem upp kom í þýskum stjórnmálum eftir þingkosningarnar í september einnig rædd á fundinum.

Málefni Rússlands hafa verið ofarlega á baugi, ekki síst eftir eiturgasárásina í Salisbury sem beindist gegn gagnnjósnaranum Sergei Skripal og Katrín spurði Merkel um mat hennar á þeirri stöðu. „Þar hefur auðvitað ýmislegt gengið á, ekki síst eftir árásina í Bretlandi en við fórum líka bara vítt og breitt yfir stöðuna á alþjóðlegum vettvangi, meðal annars málefni Norðurslóða.“

Katrín segir að móttakan hafi verið mjög hátíðleg og hún hafi haft mestar áhyggjur af því að gera eitthvað vitlaust. Merkel hafi aftur á móti stýrt þessu af mikill reynslu enda haldið nokkrar slíkar móttökur áður. „Hún sagði mér nákvæmlega hvernig þetta ætti allt að fara fram.“ Þá hefði það verið bæði gagnlegt og skemmtilegt að hitta Merkel sem margir telja vera leiðtoga hins vestræna heims. „Hún er raunvísindamaður og nálgaðist málið dálítið eins og þeirra er von og vísan. Hún yfirheyrði mig til dæmis um landafræði Íslands og sem betur hafði ég ekki gleymt öllu sem ég hafði lært í grunnskóla.“

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV