Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ræddi bæði við Stefán og Sigríði

30.07.2014 - 13:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, ákvað að óska eftir upplýsingum frá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, eftir að hafa rætt við Stefán Eiríksson, lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, og Sigríði Friðjónsdóttur, ríkissaksóknara eftir umfjöllun DV í gær.

Fullyrt var í DV að  Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefði reynt að hafa áhrif á rannsókn lögreglu á lekamálinu svokallaða.

Þar sagði enn fremur að Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu væri að hætta störfum vegna ítrekaðra afskipta Hönnu Birnu af störfum lögreglunnar í tengslum við málið. DV segir að Hanna Birna hafi kallað Stefán á fund í ráðuneytinu og beitt hann þrýstingi til að hafa áhrif á rannsókn málsins.  Því hafnar ráðherra.

DV fullyrti líka að Stefán hafi rætt þetta við Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, óskaði í dag eftir upplýsingum frá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur um málið. Þar lagði hann fram tvær fyrirspurnir um málið og gaf innanríkisráðherra frest til 15. ágúst til að svara.  

Hanna Birna vildi ekki veita fréttastofu viðtal vegna málsins í gær en sendi frá sér skriflegt svar:

Ég hafna með öllu stóryrtum og ósönnum fullyrðingum DV vegna þessa máls.  Likt og komið hefur fram í dag bæði hjá mér og lögreglustjóra á ég enga aðkomu að ákvörðun hans um að skipta um starfsvettvang og hef hvorki beitt hann þrýstingi eða haft óeðlileg afskipti af einstökum málum sem eru eða hafa verið til meðferðar hjá lögreglu. I því máli sem hér er til umræður hef ég og allir starfsmenn ráðuneytisins sýnt fullan samstarfsvilja við rannsókn málsins á öllum stigum enda hefur málið verið rannsakað ítarlega.  Líkt og komið hefur fram liggur niðurstaða ekki enn fyrir og mun ég þangað til ekki tjá mig frekar um málið.

Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis sagði í kvöldfréttum sjónvarps í gær að í ljósi fregna af meintum afskiptum innanríkisráðherra af lögreglurannsókn á lekamálinu muni nefndin taka málið fyrir.  „Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á að sinna aðhaldi gagnvart framkvæmdarvaldinu, að það fari að lögum og reglum og ef það er mat nefndarinnar að svo sé ekki gert, þá er það hennar hlutverk að sjá til þess að málin fái viðeigandi skoðun og umræðu á Alþingi. Í ljósi alls þessa og framvindunnar síðustu daga finnst mér eðlilegt og sýnt að málið komi til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í ágústlok áður en að Alþingi kemur saman til fundar,“ sagði Ögmundur.

Píratar óskuðu einnig eftir fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og að Hanna Birna, Stefán Eiríksson og Sigríður Friðjónsdóttir komi á fundinn.