Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ræða verður áhrif ferðaþjónustu á samfélagið

09.06.2016 - 12:36
Mynd: Ferðamálastofa / Ferðamálastofa
Búist er við að um 1,7 milljónir ferðamanna komi til Íslands á þessu ári, þar af um 700 þúsund manns í sumar, frá júníbyrjun til septemberloka. Oft er talað um þennan vöxt í ferðaþjónustunni sem álag en Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 að ekki væriu rétt að nálgast þetta með þeim hætti. Þetta sé atvinnugrein og hana ættum við ekki að mála of dökkum litum. Hinsvegar verði að ræða stöðu og áhrif ferðaþjóinustunnar í samfélaginu.

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að við horfum til framtíðar. Við erum í þeirri aðstöðu að geta velt fyrir okkur ekki eingöngu hvað leggja þurfi til ferðaþjónustunnar – heldur líka hvað við viljum að ferðaþjónustan geri fyrir íslenskt samfélag.“

Ólöf Ýrr bendir á sérstöðu ferðaþjónustunnar vegna þess í hversu nánum tengslum hún er við fólk og samfélagið í heild. Þess vegna þurfum við að ræða hversu mikið mark hún setji á landið, samfélagið og okkar daglega líf. „Það skortir svolítið á að við veltum þessum hlutum fyrir okkur.“

Ferðamálastjóri sagði á Morgunvaktinni að dálítið skorti á það að við litum á ferðaþjónustuna sem atvinnugrein sem við gætum stýrt, skapað henni ramma, eins og gert væri í öðrum greinum, t.d. sjávarútvegi og orkufrekum iðnaði. Við þurfum ekki að vera bara móttakendur vaxtar.

„Þá er svolítið skrýtið að umræðan um ferðaþjónustuna sé þannig að þetta sé einhver holskefla fjölgunar, sem við getum með engu móti stýrt, heldur þurfum bara að bregðast við með stækkun, fjölgun og aukningu – í staðinn fyrir að velta fyrir okkur: Bíddu! Hvernig getum við formað þessa atvinnugrein eins og aðrar.“

Ólöf Ýrr segir ekki rétt að tala eins og það sé einfalt mál að ráðast í stórfellda uppbyggingu innviða vegna þess að stöðugs og vaxandi straums ferðamanna. „Við þurfum að fara í umræðu um hvað við viljum sem þjóð.“ Hún nefnir sem dæmi að búist sé við að um 40% vinnuaflsins við ferðaþjónustuna komi frá öðrum löndum og það hafi áhrif á vinnumarkaðinn og samfélagið.

„Það er líklegt að ferðaþjónustan verði ein helsta gátt nýrra Íslendinga inn í landið.“

Og það leiði til þess að við sem hér búum þurfum að taka okkur á í því hvernig tekið er á móti þessum nýju þegnum. 

odinnj's picture
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður