Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ræða sameiningu fjögurra sveitarfélaga

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Kristján Þórisson - RÚV
Hafnar eru óformlegar viðræður um sameiningu Fljótsdalshéraðs, Djúpavogshrepps, Seyðisfjarðar og Borgarfjarðarhrepps. Sameinað sveitarfélag myndi telja tæplega 5.000 íbúa.

Nýleg könnun á Austurlandi benti til þess að talsverður vilji væri fyrir sameiningu meðal íbúa þessara sveitarfélaga, og mun meiri en í Fljótsdalshreppi og Vopnafirði. „Og á grundvelli niðurstaðna þeirrar könnunar er núna verið að tala saman. Það eru fulltrúar fjögurra sveitarfélaga sem eru að ræða um það að hefja formlegt viðræðuferli,“ segir Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs.

Má ekki bara snúast um hagræðingu

Hann telur að þetta yrði öflug eining. Aðaláskorunin sé að sýna íbúum, ekki síst í dreifðari byggðum, að þetta sé jákvætt skref. „Sameining getur ekki fyrst og fremst snúist um fjárhagslega hagræðingu. Hún þarf að snúast um styrk sveitarfélagsins til að þjónusta íbúa sína, þannig að þeim sé betur borgið í stærra sveitarfélagi, segir Stefán Bogi. 

Mynd með færslu
 Mynd: Samband íslenskra sveitarfélag - RÚV
Stefán Bogi Sveinsson

Meiri samskipti austur en suður

„Það er hagræði náttúrulega, augljóst, á ýmsum sviðum og við verðum betur í stakk búin til að standa undir þeirri þjónustu sem íbúar gera kröfu um,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps.  

Fulltrúar Djúpavogshrepps, Hornafjarðar og Skaftárhrepps ræddu formlega um sameiningu á síðasta kjörtímabili en það datt upp fyrir. „Það hefur náttúrulega verið þannig á allra síðustu árum að samskiptin hafa verið mun meiri austur á bóginn heldur en suður á bóginn. Fólk sækir meiri þjónustu, til dæmis, upp á Hérað, þannig að ég held að það sé staðan akkúrat í dag,“ segir Gauti. 

Mynd með færslu
Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri í Djúpavogi. Mynd: Djúpavogshreppur - RÚV
Gauti Jóhannesson

„Okkar sveitarfélag er of lítið“

Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði, telur að mikil tækifæri geti falist í því að sameina þessi sveitarfélög. „Ég held að það sé alltaf meiri styrkur í því þegar sveitarfélög eru að ákveðinni stærðargráðu og það er ljóst að okkar sveitarfélag er of lítið,“ segir Hildur. „Ég held það sé kominn tími til að við tökum þessa umræðu og förum í greiningarvinnu, hvað erum við að fara græða á þessu og hverju getum við tapað,“ segir Hildur.  

Mynd með færslu
 Mynd: Seyðisfjarðarlistinn - RÚV
Hildur Þórisdóttir

Samtalið mikilvægt - en á byrjunarstigi

Jakob Sigurðsson, oddviti Borgarfjarðarhrepps, leggur áherslu á að viðræðurnar séu á byrjunarstigi. Enn sem komið er hafi sveitarstjórnir ekki samþykkt að ganga til formlegra viðræðna. „Við erum bara að eiga þetta samtal, kannski vegna þess að stjórnvöld hafa boðað þetta í mörg ár,“ segir Jakob. Ráðherra hafi nú lagt til blandaða leið. Sveitarfélög eigi að fá stuðning til að sameinast á næstu árum og því sé rétt að láta reyna á þetta. „Og ég held það sé mikilvægt að sveitarfélög eigi þetta samtal, áður en það kemur að einhverjum lögskipunum," segir Jakob. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Kristjánsson - RÚV
Jakob Sigurðsson

Stefna stjórnvalda hefur áhrif

Umræða um fækkun sveitarfélaga hefur verið ofarlega á baugi á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem nú fer fram á Akureyri. Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra sveitarstjórnarmála, lagði þar til að jöfnunarsjóðurinn verði notaður til að hvetja sveitarfélög til að sameinast að sjálfsdáðum. Ef það takist ekki verði þau knúin til þess með lagasetningu innan fárra ára. Hildur segir að skýr stefna stjórnvalda um fækkun sveitarfélaga ýti við sveitarstjórnarfólki. „Auðvitað hefur það áhrif hvaða stefnu stjórnvöld hafa í þessum málum. Mér leist ágætlega á þessa blönduðu leið sem Sigurður Ingi kynnti í gær,“ segir Hildur. „Ég held að þetta sé það sem lítil sveitarfélög þurfi að horfast í augu við,“ segir hún.

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson

Átaksverkefni hafa skilað árangri

Stefán Bogi bendir á að mikill árangur hafi náðst í sameiningum sveitarfélaga á síðustu árum og áratugum. Mestur árangur hafi náðst í átaksverkefnum. „Að ríkið hefur komið að borðinu með ákveðna jákvæða hvata til þess að sveitarfélögin sjái tækifæri í sameiningum. Ég bind töluverðar vonir við að nýtt verkefni af þessu tagi geti ýtt undir að fleiri sveitarfélög sameinist,“ segir Stefán Bogi. Það væri sveitarstjórnarstiginu til heilla, færri og stærri sveitarfélög geti betur sinnt þjónustu við íbúa. 

Alltaf einhver átök

Rétt rúmlega 100 manns búa í Borgarfjarðarhreppi og er það lang fámennasta sveitarfélagið af þessum fjórum. Jakob segir óumflýjanlegt að það verði skiptar skoðanir um hugsanlega sameiningu. „Auðvitað verða alltaf einhver átök, það er bara þannig, en þetta er líka spurning um það hvernig við setjum þetta fram. Við þurfum að hafa byggðaráð eða slíkt í hverjum kjarna fyrir sig, sem hafa eitthvað um hlutina að segja, hvort sem það er fjárhagsáætlun, skipulagsmál eða hvað það er,“ segir Jakob. 

Hann telur sjálfur að þetta sé gáfulegt skref. „Já, ég er frekar farinn að hallast að því. Bara vegna þess hvað þetta er orðið íþyngjandi fyrir lítil sveitarfélög, það er alltaf verið að hlaða meira og meira á þau og þau ráða bara ekki við það, því miður,“ segir Jakob.  

Verða að læra af reynslunni

„Gagnrýnin á sameiningu sveitarfélaga hefur snúist um þetta, að valdið færist frá íbúunum inn á einhvers konar miðsvæði þar sem eru teknar miðstýrðar ákvarðanir sem taka ekki tillit til hagsmuna íbúa annars staðar í sveitarfélaginu,“ segir Stefán Bogi. „Þetta vitum við og við þessu verðum við að bregðast og um það snúast viðræður um sameiningu sveitarfélaga,“ segir Stefán Bogi.  

Hildur telur að meirihluti íbúa á Seyðisfirði vilji kanna kosti þess að sameinast nágrannasveitarfélögum. Líklegt sé að sveitarstjórnir taki afstöðu til þess mjög fljótlega hvort hefja eigi formlegar sameiningarviðræður. 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV