Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ræða sameiningu allra sveitarfélaga í sýslunni

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Samstarfsnefnd um sameiningu allra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu mun hittast á öðrum fundi sínum í næstu viku. Formaður nefndarinnar segir vinnuna ganga vel.

Fjögur sveitarfélög tilheyra Austur-Húnavatnssýslu; Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagaströnd. Þrír fulltrúar frá hverju sveitarfélagi eiga sæti í samstarfsnefndinni. Fyrsta janúar bjuggu samtals 1854 í sveitarfélögunum fjórum, þar af langflestir í Blönduósbæ eða 866.

Fyrsti fundur samstarfsnefndarinnar, eftir að ákveðið var að hefja formlegar viðræður um sameiningu, var 31. október. Þar var Þorleifi Ingvarssyni, oddvita Húnavatnshrepps og formanni nefndarinnar, falið að afla upplýsinga um mögulegan stuðning Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningarferlið. Einnig að ræða við ráðgjafafyrirtæki til að aðstoða við verkefnið.

„Við ætlum að hittast aftur á miðvikudaginn í næstu viku,“ segir Þorleifur. „Ég tel að við séum tilbúin að láta reyna á þetta.“ Vinnan sé auðvitað komin skammt á veg. Að fenginni reynslu sé afar ólíklegt að undirbúningi sameiningar verði lokið fyrir sveitastjórnarkosningarnar næsta vor. „Svona ferli tekur að minnst kosti eitt til tvö ár,“ segir hann.