Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ræða saman um myndun meirihluta á Akureyri

Mynd með færslu
 Mynd:
Sjálfstæðisflokkurinn er sigurvegari kosninganna á Akureyri, bætti við sig tveimur bæjarfulltrúum og er því með þrjá. L-listinn, sem tapaði fjórum af sex bæjarfulltrúum sínum í kosningunum og þar með meirihluta í bæjarstjórn, er í viðræðum við Framsóknarflokk og Samfylkingu um myndun nýs meirihluta.

Endanleg skipan bæjarfulltrúa á Akureyri varð ekki ljós fyrr en síðustu tölur höfðu verið taldar. Sjálfstæðisflokkur hlaut mest fylgi og þrjá bæjarfulltrúa, Framsóknarflokkur, Samfylking og L-listi tvo menn hver, Björt framtíð og Vinstri græn hlutu einn mann hvor, en Dögun náði ekki inn manni. Konur eru nú fleiri en karlar í bæjarstjórn á Akureyri.

Fljótlega eftir að fyrstu tölur lágu fyrir í nótt hófu oddvitar L-lisa, Framsóknar og Samfylkingar að ræða saman um myndun meirihluta. Þetta staðfesti Guðmundur Baldvin Guðmundsson oddviti Framsóknarflokks í viðtali í nótt. „Við erum búnir að sammælast um það að hittast á morgun og ræða málin og ég hef fulla trú á að það gangi upp." 

Og nú skömmu fyrir hádegi hófst fundur þessara þriggja framboða um myndun meirihluta. Aðspurður segist Matthías Rögnvaldsson, oddviti L-lista, telja eðlilegt að listinn taki áfram þátt í nýjum meirhluta, þrátt fyrir að tapa fjórum fulltrúum og meirihlutanum í kosningunum. „Þetta er það sem við erum að horfa á núna, að þessir flokkar vinni saman. Við höfum gert góða hluti og Samfylkingin og Framsókn vilja vinna með okkur áfram og við erum þakklát fyrir það.“

Matthías neitar því að verið sé að mynda blokk til að útiloka Sjálfstæðisflokkinn. „Þetta er bara gert til að halda áfram að vinna saman."