Ræða hæfi Sigmundar og aflandsfélögin í dag

04.04.2016 - 06:39
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kemur saman í hádeginu í dag til að ræða hæfi forsætisráðherra og aflandsfélög almennt. Auk forsætisráðherra hafa fjármála- og innanríkisráðherra verið tengt slíkum félögum. Greint var frá því í Kastljósi í gær, að samkvæmt gögnum frá panömsku lögfræðistofunni Mossack Fonseca, var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eigandi aflandsfélagsins Wintris Inc. þegar hann settist á þing og til loka árs 2009.

Samkvæmt gögnunum var Sigmundur því annar eigandi Wintris, sem skráð er á bresku Jómfrúaeyjum, þegar félagið lýsti kröfum í föllnu bankana.

Helmingshlut í félaginu seldi hann svo eiginkonu sinni, samkvæmt gögnunum, á einn dollara degi áður en lög um skatta á aflandsfélög tóku gildi hér á landi. Hjónin hafa sagt að um mistök bankanna hafi verið að ræða og að aldrei hefði staðið til að Sigmundur yrði skráður fyrir helmingshlut í félaginu.

Vísir greindi frá því í gærkvöldi að öðrum nefndarfundum sem áttu að fara fram fyrir hádegi í dag hefði verið frestað. Stjórnarandstaðan kallaði eftir því til að geta fundað innan þingflokkanna vegna þeirra upplýsinga sem fram komu í gær.

Þingfundur hefst klukkan 15 á morgun þar sem óundirbúnar fyrirspurnir eru meðal dagskrárliða.

asgeirjo's picture
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi