Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ráðuneytin hunsa vanda VMA

23.05.2016 - 16:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skólameistari VMA segist ekkert hafa heyrt frá fjármálaráðuneytinu eða menntamálaráðuneytinu vegna rekstrarvanda skólans. Hún segist ekki skilja hvers vegna ráðherrar vilji að skólinn safni skuldum hjá birgjum sínum og segist ekki geta skorið niður til að mæta vandanum.

Rúmlega mánuður er liðinn frá því að Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, VMA, greindi frá vandanum á vef skólans. Þegar fréttastofa leitaði viðbragði hjá Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra, daginn eftir að fréttin birtist, sagðist hann hafa skilning á vandanum og að hann myndi reyna að leysa hann svo fljótt sem auðið væri. Meðal annars myndi hann ræða við fjármálaráðherra sem ber ábyrgð á því að rekstrarfé er ekki lengur veitt til skólans. Það er vegna reglna um tap á rekstri frá árinu áður.

Í nauðasamningum um allan bæ

„Ef þetta væri fyrirtæki þá væri hægt að nota orðið gjaldþrota, en hér blikka öll ljós og við erum ekki að borga neina reikninga í augnablikinu þar sem að við höfum ekkert rekstrarfé til þess að greiða þá. Í staðinn erum við í einhverjum nauðasamningum hér um allan bæ, að semja við okkar birgja og þá aðila sem þjónusta okkur um að geyma reikningana í einhvern tíma,“ segir Sigríður Huld, sem greindi einnig frá þessu í samtali við mbl.is á laugardag.

Ekkert heyrt frá Illuga

Sigríður segir að ekki sé hægt að skera niður í rekstrinum, nema með því að fækka námsbrautum. Það sé ákvörðun sem hún geti ekki tekið nema í samráði við menntamálaráðuneytið. Illugi var á ferðinni um Norðurland í síðustu viku og var sæmdur heiðursmerki MA. Hann kom ekki við hjá VMA.

„Nei, ég hef ekki heyrt neitt í Illuga Gunnarssyni síðan fyrir svona þremur vikum síðan þegar við hittumst á fundi með skólameisturum á Norðurlandi eystra úti í Ólafsfirði. Ég ítrekaði beiðni mína um fund og það hefur ekkert gerst,“ segir Sigríður.
 

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV