Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ráðuneytið segir kosningum teflt í tvísýnu

23.03.2018 - 14:53
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist/RÚV
Skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu segir að með því að breyta kosningalögum nú tveimur mánuðum fyrir sveitarstjórnarkosningar, og lækka kosningaaldur, gæti framkvæmd kosninganna verið teflt í tvísýnu. Grundvallarbreytingar á lögum svo skömmu fyrir kosningar skapi hættu á mistökum og mistök geti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir gildi kosninga.

Þetta segir í bréfi Bryndísar Helgadóttur, skrifstofustjóra lagaskrifstofu ráðuneytisins, sem sent var stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í gær vegna frumvarps um lækkun kosningaaldurs sem stendur til að greiða atkvæði um í þinginu í dag.

„Undirbúningur er hafinn að þessum kosningum. Búið er að yfirfara kosningavefinn og þær upplýsingar sem þar er að finna fyrir kjósendur, frambjóðendur og aðra. Ef þessi lagabreyting er gerð núna þarf að yfirfara allt efnið og gæta vel að því að þar sé að finna réttar upplýsingar um löggjöf og framkvæmd. Verið er að ganga frá handbók fyrir kjörstjórnir með upplýsingum um löggjöf. Yfirfara þarf hana á ný verði þessar breytingar gerðar. Þá má utankjörfundaratkvæðagreiðsla byrja 31. mars n.k. þannig að við erum komin töluvert inn í undirbúninginn,“ segir í bréfinu.

Fara þurfi vel yfir lögin þannig að ljóst sé að breytingin á kosninaaldri kalli ekki á frekari breytingar.

„Afstaða ráðuneytisins er sú að nú sé of skammur tími til kosninga til að rétt sé að gera þær grundvallarbreytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna eins og lagt er til í frumvarpinu. Ráðuneytið leggur áherslu á að ekki séu gerðar breytingar á kosningalöggjöf sem ekki geta hlotið næga kynningu og undirbúning fyrir kosningar. Undirbúningur kosninga er viðkvæmt ferli og grundvallarbreytingar á þessum tímapunkti geta teflt framkvæmd kosninga í tvísýnu,“ segir enn fremur í bréfinu.