Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ráðuneytið leggst gegn afnámi móðgunarbanns

09.04.2018 - 07:55
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Ekki ætti að fjarlægja úr íslenskum hegningarlögum ákvæði um að bannað sé að smána erlend ríki og erlenda þjóðhöfðingja, að mati utanríkisráðuneytisins. Það væri í andstöðu við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands og gæti leitt til þess að sendiráð Íslands erlendis nytu minni verndar en þau gera nú.

Þetta kemur fram í umsögn ráðuneytisins um frumvarp fjögurra þingmanna Vinstri grænna sem kveður á um að 95. grein almennra hegningarlaga falli brott.

Í greininni segir að hver sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann þess, þjóðhöfðinga eða fána skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Séu sakir miklar varði brotið allt að sex ára fangelsi. Sömu refsingu eigi þeir yfir höfði sér sem smáni eða móðgi starfsmenn erlends ríkis hér á landi, ógni sendierindreka erlends ríkis eða beiti þá valdi eða ráðist inn á og valdi skemmdum á sendiráðssvæði.

Sagan farið mjúkum höndum um nasistasmánun

Flutningsmenn frumvarpsins eru Steinunn Þóra Árnadóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson og Kolbeinn Óttarsson Proppé. Þau telja greinina óþarfa; önnur lagaákvæði taki á skemmdarverkum á sendiráðum og þeim ákvæðum greinarinnar sem eigi að standa vörð um sóma erlendra þjóðhöfðingjahafi hafi sjaldan verið beitt hér á landi og enn sjaldnar fallið dómar vegna þeirra.

„Þau fáu tilvik hafa þó síst verið landi og þjóð til sóma. Þannig hlaut rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson dóm fyrir að kalla Adolf Hitler blóðhund og skáldið Steinn Steinarr fyrir að smána hakakrossfána þýska nasistaflokksins. Óhætt er að segja að sagan hafi farið mjúkum höndum um þau afbrot,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Ríkar skyldur samkvæmt Vínarsamningnum

Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, er ósammála því að þessi grein hegningarlaga sé til óþurftar. Í umsögn um frumvarpið, sem hann ritar fyrir hönd ráðuneytisins, segir að þessi lagaákvæði séu til komin vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands sem kveða á um friðhelgi og vernd erlendra sendiráða og sendierindreka. Þau hvíli á alþjóðasamningi um stjórnmálasamband sem alla jafna er kallaður Vínarsamningurinn.

Samkvæmt Vínarsamningnum hvílir sérstök skylda á móttökuríki sendierindreka „að gera allar þær ráðstafanir, sem viðeigandi eru, til að vernda sendiráðssvæði fyrir öllum árásum og tjóni og koma í veg fyrir röskun á friði sendiráðsins eða skerðingu á virðingu þessu,“ segir í umsögn Sturlu.

Skyti skökku við að vernda þjóðhöfðingja minna

Í umsögninni segir raunar að lesa megi úr greinargerðinni með frumvarpinu að því sé einkum beint gegn þeim hluta 95. greinarinnar sem lýtur að vernd erlendra þjóðhöfðingja.

„Hvað snertir móðgun við erlenda þjóðhöfðingja sérstaklega, má rökstyðja að öll sömu vemdarsjónarmið og um sendiráð og sendierindreka eigi að gilda um þjóðhöfðingja erlends ríkis,“ segir í umsögninni. „Að mati ráðuneytisins skýtur skökku við ef þjóðhöfðingi erlends ríkis njóti minni réttarverndar heldur en t.d. sendiherra viðkomandi ríkis, aðrir sendierindrekar og fjölskyldur þeirra.“

Íslensk sendiráð gætu notið minni verndar

Utanríkisráðuneytið minnir einnig á svokallaða gagnkvæmnisreglu í milliríkjasamskiptum. Samkvæmt henni er mjög líklegt að önnur ríkju myndu bregðast eins við gagnvart Íslandi og Ísland gegn þeim.

„Af því leiðir að yrðu samþykkt lög sem slá af vernd og friðhelgi gagnvart sendiráðum og sendierindrekum erlendra ríkja á Islandi, þrátt fyrir efni þjóðréttarlegra skuldbindinga og ákvæði íslenskra laga, má gera ráð fyrir að íslensk sendiráð og sendiráðsbústaðir á erlendum vettvangi yrðu beitt sambærilegum reglum af hálfu móttökuríkja þeirra og fyrir vikið njóta minni verndar,“ segir í umsögn ráðuneytisins, sem telur að í greinargerðinni með frumvarpinu hafi ekki verið sýnt fram á nauðsyn þess að fjarlægja greinina úr hegningarlögum, og ekki sé einsýnt að það hefði rýmkun tjáningarfrelsisins í för með sér.

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV