Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ráðuneytið gagnrýndi lögreglurannsókn

31.07.2014 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Innanríkisráðuneytið hefur opinberlega gagnrýnt rannsókn lögreglu á lekamálinu. Mál innanríkisráðherra, eftri bréf umboðsmanns Alþingis í gær, er ofarlega í huga þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Engin ákvörðun hefur verið tekin um þingflokksfund vegna þess.

Ekki hefur náðst í Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, í dag. Fram hefur komið að þingmenn flokksins hafa áhyggjur af þeirri stöðu sem upp er komin vegna bréfs Umboðsmanns Alþingis til innanríkisráðherra þar sem hann spyr um fundi hennar við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu um lögreglurannsóknina á lekamálinu.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er málið ofarlega í huga þingmanna flokksins þótt skiptar skoðanir séu um það. Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingflokksformaður segir við fréttastofu að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að boða til þingflokksfundar að svo stöddu.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, spyr Hönnu Birnu sérstaklega í bréfi sínu hvað hún hafi sagt við Stefán Eiríksson, fráfarandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, um lögreglurannsóknina á lekamálinu og starfshætti lögreglunnar. Tryggvi ákvað að senda ráðherra bréfið eftir að hafa rætt bæði við Stefán Eiríksson og Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara um málið. Innanríkisráðuneytið hefur opinberlega gagnrýnt rannsókn lögreglu á lekamálinu og tekið til varna fyrir starfsmann sem lögregla hefur rökstuddan grun um að hafi lekið trúnaðargögnum um hælisleitanda til fjölmiðla. Í frétt á vef ráðuneytisins frá 18. júní segir að lögreglan kveði fast að orði í kröfu gegn blaðamanni Morgunblaðins og setji persónuleg samtöl einstakra starfsmanna ráðuneytisins í sérkennilegt samhengi.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru mörg dæmi um það að Umboðsmaður Alþingis kalli eftir nánari skýringum hjá ráðamönnum á málum sem fjölmiðlar hafa fjallað um til að hann geti metið hvort hann hefji formlega athugun. Ekki mun vera til nein formleg skráning í kerfi lögreglunnar um meintan fund innanríkisráðherra með lögreglustjóra. Ekki fengust upplýsingar um það í innanríkisráðuneytinu hvort slíkir fundir væru almennt skráðir, en umboðsmaður óskaði sérstaklega eftir gögnum um slíka fundi.