Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ráðuneyti samþykkir nafnið Suðurnesjabær

06.01.2019 - 18:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Suðurnesjabær er nú opinbert heiti sameinaðs sveitarfélags Sandgerðis og Garðs. Sveitarstjórnarráðuneytið hefur samþykkt heitið og tók sú samþykkt gildi á nýársdag.

Íbúar greiddu atkvæði um heiti í nóvember og þá fékk nafnið Suðurnesjabær um 75 prósent atkvæða. Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, segir að almenn ánægja sé með nafnið. „Já, ég heyri ekki annað, að minnsta kosti heyrir maður ekki mikið um gagnrýnisraddir. Ég held að þetta falli bara í ágætis jarðveg hjá fólkinu.“ 

Nú er verið að hanna merki Suðurnesjabæjar. Sveitarfélögin voru sameinuð síðasta sumar og hefur verið að ýmsu að huga við sameininguna. „Það hefur bara gengið mjög vel. Þetta er mikið verkfni að sameina tvö sveitarfélög og tekur sinn tíma. Þetta er mikið af stórum og smáum verkefnum sem þarf að gera en það er töluvert eftir og þetta gerir sig ekki allt á einum degi, það er ljóst.“