Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ráðningar Íbúðalánasjóðs gagnrýndar

02.07.2013 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Ráðning Guðmundar Bjarnasonar sem framkvæmdarstjóra Íbúðalánasjóðs er sett í pólitískt samhengi í skýrslu Rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð. Ráðningar Halls Magnússonar og Jóhanns G. Jóhannssonar eru einnig gagnrýndar.

Bent er á að Guðmundur Bjarnason, sem var á þeim tíma varaformaður Framsóknarflokks og ráðherra flokksins, hafi hlotið starf framkvæmdarstjóra þó hann gæti ekki hafið störf á auglýstum tíma. Starf framkvæmdarstjóra var því geymt fyrir hann þar til hann fékk lausn frá ráðherrastörfum. Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði að ekkert óeðlilegt væri við það að halda frá stöðu framkvæmdastjóra fyrir ráðherra sem væri á útleið. Í auglýsingu fyrir framkvæmdarstjóra Íbúðalánasjóðs árið 1998 eru litlar kröfur um menntun og hæfni. Þá er ráðningarferlið á höndum undirbúningsnefndar félagsmálaráðuneytisins, án aðkomu eða milligöngu ráðningarfyrirtækja.

Fleiri ráðningar eru nefndar í skýrslunni. Ráðningar Halls Magnússonar og Jóhanns G. Jóhannssonar eru sagðar vera án undangenginna auglýsinga. Um ráðningu Halls segir að hann hafi fyrst verið ráðinn sem yfirmaður gæða- og markaðsmála en síðar sem yfirmaður þróunar- og almannatengslasviðs og að lokum sem sviðsstjóri þróunarsviðs. Ekki fáist séð að sú staða hafi verið auglýst.

Jóhann G. Jóhannsson var fyrst ráðinn sem verktaki til Íbúðalánasjóðs en fékk svo stöðu yfirmanns áhættustýringar. Staðan var ekki auglýst. Ennfremur fékk Jóhann áfram verktakagreiðslur frá sjóðnum samhliða launum, samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins frá 2011. Í innri endurskoðunarskýrslu fyrir árið 2005 er fundið að ráðningarfyrirkomulagi Jóhanns. Að mati framkvæmdastjóra sjóðsins var þekking á áhættustýringarsviði og fjárstýringarsviði ekki til staðar hjá starfsmönnum sjóðsins og því hafi þurft að ráða aðila með þekkingu. Ekki hafi reynst unnt að ráða slíkan aðila samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna. Því hafi Jóhann verið ráðinn sem verktaki. 

Þar sem fjallað er um áhættustýringu sjóðsins í skýrslunni er ályktað að Jóhann hefði ekki haft nægilegan skilning á í áhættustýringarkerfi sjóðsins, en hann var helsti ráðgjafi stjórnar Íbúðalánasjóðs.