Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ráðist á ungan dreng við verslun í Grafarvogi

22.04.2019 - 14:32
Mynd með færslu
 Mynd: Fréttir
Ráðist var á ungan dreng af erlendum uppruna við verslunarkjarna í Langarima í Grafarvogi síðdegis í gær. Vitni segir að kveikjan að árásinni hafi verið andúð á útlendingum. Lögreglan staðfestir í samtali við fréttastofu að henni hafi borist tilkynning um líkamsárásina í gær. Málið sé nú til skoðunar.

Sigurður Hólm Gunnarsson, forstöðumaður hjá Barnavernd, greinir frá líkamsárásinni í hópi fyrir íbúa Grafarvogs á Facebook. Þar segist hann hafa orðið var við hóp af ungum mönnum ráðast að einum með ofbeldi og taka það upp á síma í gær. Hann hafi ákveðið að skerast í leikinn til að stöðva ofbeldið.  

„Þar voru mjög reiðir ungir menn sem rifu kjaft og sögðu að mér kæmi málið ekki við. Þeir voru ógnandi. Ég bað þá að yfirgefa svæðið og þeir neituðu. Það var ekki fyrr en ég tók upp símann og hringdi í lögregluna sem þeir hörfuðu í felur.“

Sigurður segir fórnarlamb árásarinnar, dreng á unglingsaldri af erlendum uppruna, hafa verið augljóslega skelkað og niðurbrotið. 

Að sögn Sigurðar segist drengurinn hafa verið plataður á staðinn í gegnum netið. Þegar hann hafi mætt hafi 8-10 drengir á unglingsaldri beðið hans. Þá hefur Sigurður eftir drengnum að einhver úr hópi drengjanna hafi kallað hann skítugan útlending og skipað honum að sleikja skóna sína. Þegar hann neitaði því hafi verið ráðist á hann og hann meðal annars fengið högg í andlit. Sigurður segir að einhverjir í hópnum hafi verið vopnaðir hnúajárnum. 

Sigurður segir í færslunni að hann deili þessu í þeim tilgangi að foreldrar ræði við börn sín og fái jafnvel að skoða síma þeirra. Svona ofbeldi eigi auðvitað aldrei að líðast og mikilvægt sé að rætt sé opinskátt um andúð á útlendingum, sem hann segir að hafi verið kveikjan að árásinni. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV