Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ráðist á sendiráð Frakklands í Búrkína Fasó

03.03.2018 - 07:53
epa06576263 Smoke rises in the streets amidst a suspected terrorist attack in the capital Ouagadougou, Burkina Faso, 02 March 2018. According to reports at least 28 people have been killed in the attacks on the French embassy and miltary headquarters in
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tugir létust þegar ráðist var á franska sendiráðið í Búrkína Fasó og herstöð í landinu. Líkur eru á að sami hópur sé að baki beggja árása. Árásirnar voru gerðar á sama tíma og foringjar hersveita sem berjast gegn vígamönnum hittust í Ouagadougou.

Árásin á herstöðina var bílsprengjuárás, og talið er að fundurinn hafi þar verið skotmarkið. Foringjar frá Búrkína Fasó, Tsjad, Malí, Máritaníu og Níger voru á fundinum. Ríkin stofnuðu svokallað G5 bandalag sem berst gegn vígamönnum við suðurbrún Sahara.

Átta hermenn létust í árásunum og 80 særðust, að sögn Clement Sawadogo öryggismálaráðherra Búrkína Fasó. Hann segir átta árásarmenn hafa verið fellda. Þá hefur AFP fréttastofan eftir þremur heimildamönnum að minnst 28 hafi látið lífið í árásinni á herstöðina. 

Heimildir frá Frakklandi herma að enginn franskur ríkisborgari hafi fallið í átökunum og tekist hafi að ná stjórn á ástandinu við sendiráðið. Að sögn vitna stukku fimm vopnaðir menn út úr bíl og hófu að skjóta á allt sem hreyfðist áður en þeir héldu í átt að franska sendiráðinu. Á sama tíma sprakk sprengja við herstöðina, sem er um kílómetra frá sendiráðinu.

Enn hefur enginn hópur lýst yfir ábyrgð sinni á árásinni. Remis Fulgance Dandjinou, upplýsingaráðherra Búrkína Fasó, segir árásina að öllum líkindum hryðjuverk.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV