Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ráðherraræði sífellt erfiðara, segir prófessor

07.10.2018 - 17:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands segir að ráðherraræði, eins og hér, sé mjög óvenjulegt. Sífellt erfiðara verða að láta ríkisstjórnir ólíkra flokka virka þegar samstarfsflokkar þurfi að bera ábyrgð á gjörðum ráðherra sem þeir hafi ekkert haft um að segja. 

Hann telur að eftir hrunið hafi stjórnmálaflokkarnir notað ýmsar aðferðir til að draga úr ráðherraræði. Í fyrirlestri hans á ráðstefnunni "Hrunið, þið munið" kom fram að erfiðara verði að láta ráðherraræðis ríkisstjórnir virka. 

„Ráðherraræði á Íslandi er mjög óvenjulegt og svona í alþjóðlegum fræðum þá er þetta talið módel sem gengur eiginlega ekki upp. Vegna þess að það er eiginlega ekki hægt að stilla samstarfsflokkum í ríkisstjórn í þá aðstöðu að þurfa að bera ábyrgð á gjörðum ráðherra sem þeir hafa í raun og veru ekkert haft með að segja hverjar eru.“  

Gunnar Helgi segir orðið erfiðaða er reka slík kerfi en var og að stjórnmálaflokkarnir finni það. Þeir semji til dæmis ítarlegri stjórnarsáttmála en áður og setji formenn þingnefnda úr öðrum flokki en ráðherra er í. Það sé gert í vaxandi mæli eftir hrunið. 

Dómsmálaráðherra gott dæmi

„Ég held að sýn núverandi dómsmálaráðherra á hlutverk ráðherra og völd ráðherra sé mjög í anda ráðherraræðis.“ 

Það hafi verið vandamál í síðustu ríkisstjórn þegar greinilega hafi orðið átök milli Bjartrar framtíðar og ráðherrans. Þá hafi í mars gerst sá einstaki atburður að borin hafi verið upp vantrauststillaga á dómsmálaráðherrann fyrir embættisgjörðir hans sem samstarfsflokkarnir hafi í raun ekkert haft um að segja:
 
„Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það að ýmsum þeim sem þurftu að lýsa yfir stuðningi við ráðherrann var ekki hlátur í hug þegar að þeir lentu í þeirri aðstöðu. Og þetta skaðar viðkomandi flokka þegar ráðherra fer fram með stefnu sem er andsnúin hagsmunum þeirra og eitthvað sem þeir hafa aldrei fengið að semja um. Og ég held að það muni eftir því sem við fáum ríkisstjórnir með fleiri flokka og ólíkari kannski að sumu leyti að þá verði sífellt erfiðara að fá slíkar ríkisstjórnir til þess að virka.“